149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[19:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég er svo sem engu nær. Mér sýnist að í þessum anda sé í góðu lagi að ég hagnist á að byggja spítala, selja tækjabúnað inn á spítala, veita lögfræðiþjónustu inn á spítala, veita bókhaldsþjónustu inn á spítala eða selja lyf inn á spítala — en ég má alls ekki hagnast á því að selja sérfræðiþekkingu mína sem læknir eða hjúkrunarfræðingur inn á spítala eða inn í heilbrigðiskaup ríkisins almennt. Mér finnst þetta endurspegla það sem að mínu viti er grundvallarhugsanaskekkjan í þessu: Við erum með opinbert heilbrigðiskerfi og við erum öll sammála um þetta opinbera heilbrigðiskerfi, þ.e. við viljum jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu og við viljum að ríkið borgi fyrir heilbrigðiskerfið með hóflegri greiðsluþátttöku okkar sjálfra. Það eina sem skiptir ríkið máli, sem eina kaupanda þjónustunnar sem hægt er að nefna í þessu, er hvað þessi þjónusta kostar.

Hvers konar kaupandi er ríkið? Hvaða afli er ríkið að beita sem þessi eini kaupandi þjónustunnar á markaði, að einhverju ráði, til að knýja fram sem hagkvæmasta samninga og sem besta nýtingu opinbers fjár? Þar finnst mér hugsanaskekkjan vera: Maður heyrir fólk í sömu flokkum gjarnan tala um að helst megi ekkert fara í einkarekstur og það er sagt án þess að menn viti hvað þjónustan kostar hjá hinu opinbera. Við erum aldrei með neinn samanburð í því hvað aðgerðin kostar hjá opinberum aðila og hvað hún kostar hjá einkareknum aðila. Er það ekki það sem skiptir á endanum mestu máli, að ríkið beiti öllum tiltækum aðferðum til að ná fram sem hagkvæmustum kaupum á þessari þjónustu eins og öðrum vöru- eða þjónustukaupum sem ríkið stendur í?