149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[19:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að fremja þá synd hérna að spyrja um hluti sem ég veit ekki svörin við eins og stundum er varað við. Ég viðurkenni bara að ég skil þetta ekki til hlítar. Það getur vel verið að ég sé að spyrja einhverra heimskulegra spurninga, en ég læt mig hafa það. Það verður bara að hafa það.

Eins og ég sé þetta viljum við hafa heilbrigðiskerfi sem langflestir nota að jafnaði, að það sé almennt það sem sé notað, vegna þess að væntanlega viljum við að flestir hafi sama aðgang og séu að borga það sama. Kannski er það einhver mishugsun hjá mér og ég hugsa að ég fari líka í andsvör við stuðningsmenn frumvarpsins þegar líður á umræðuna.

Það sem mér finnst ekki alveg stemma við sýn hv. þingmanns er að fólk sé að leggja þetta fram vegna þess að það sé á móti einkarekstri. Ég held að það myndi bara leggja fram öðruvísi frumvarp. Þetta sérstaka samband sem var nefnt hérna áðan (Forseti hringir.) milli kúnnans og heilbrigðisstofnunar, sér hv. þingmaður virkilega ekkert í því sem hann gæti í það minnsta gert grín að eða gert lítið úr? Við getum þá skilið það betur (Forseti hringir.) þegar það kemur frá hægri manni.