149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[19:27]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Heimildarákvæði er einmitt það, heimildarákvæði, og það er svo í valdi hæstv. ráðherra hverju sinni að beita því heimildarákvæði eða ekki. Ég hjó eftir að hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni hvort hann teldi að þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra hefði gert mistök með því að fara akkúrat eftir því heimildarákvæði í sínum samningum sem við leggjum hér til.

Það sem ég velti fyrir mér varðandi kreddurnar er að mér finnst dálítið bera á því þegar rætt er um heilbrigðismál almennt að menn ræði ekki það sem er undir hverju sinni heldur draga með sér einhverja hugmyndafræði. Það á við um mjög marga. Ég er ekki að saka hv. þingmann um að vera einan í því. Við getum svo sjaldan rætt heilbrigðiskerfið lið fyrir lið, hvað þá sest yfir það í heild sinni, af því að við erum að taka með einhvern farangur og ræða hann. Þetta mál liggur hérna undir, að skýra og skerpa á heimildarákvæði ráðherra. (Forseti hringir.) Samt láta hv. þingmaður og fleiri sem hafa talað í kvöld eins og þetta snúist um að banna einkarekstur. (Forseti hringir.) Við getum alveg eins talað um tunglferðir.