149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[19:28]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er margbúinn að endurtaka að ég er ekki að tala um að þetta frumvarp banni eitt né neitt. Ég er að segja að það breyti engu. Þá erum við ekki að banna eitt né neitt. Ég er bara að tala um pólitíska fnykinn af því. Maður finnur lyktina. (Gripið fram í.) — Já, já. Ég veit ekki hvort það hafi verið mistök hjá þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, að semja á þennan hátt. Ég veit ekki einu sinni hvort samningurinn hafi verið góður eða slæmur. Ég veit það ekki, en ég geng út frá því að hann hafi talið þetta skynsamlegt á sínum tíma, kannski með hliðsjón af þeim pólitíska veruleika sem hann bjó við, það má vel vera. En ég vil engar kreddur í þessu. Ég vil að við getum rætt þetta út frá tveimur sjónarmiðum, faglegum og kostnaði, ekki hvort ríkið eigi að gera það eða hvort einkaaðili eigi að gera það eða hvort einkaaðili hafi arð af því eða ekki. Og talandi um arðinn þá er 20% skattur á fyrirtæki og svo 22,5% af arðgreiðslunum (Forseti hringir.) þannig að við erum komin í 42% skatt, af því að menn halda að þeir séu að borga minni skatt með þessu. Svo er ekki. Fyrirgefið, forseti.