149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[19:32]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmanni sjáist yfir þá staðreynd að það er ástæða fyrir því að við erum að eyða hundruðum milljarða á ári í þessa þjónustu og teljum að það eigi að vera á forsjá ríkisins að útvega almenningi hana. Það er vegna þess að þetta er allt öðruvísi þjónusta en hver önnur þjónusta, eins og hv. þingmaður kom inn á. Núna eru 25% af allri heilbrigðisþjónustu á hendi einkaaðila og í einkarekstri. Ég hef aldrei, hvorki í ræðu, riti né annars staðar, gert nokkra einustu athugasemd við það. Ég hef sagt og sagði það hér í dag að ég teldi það einmitt mjög mikilvægan þátt í heilbrigðisþjónustukerfi landsins.

Ég get hins vegar ekki verið sammála hv. þingmanni þegar hann segir að arður til hluthafa í heilbrigðisþjónustufyrirtæki sé eins og laun. Það er ekki þannig. Laun fær maður fyrir vinnuna sína. Ef ég kaupi mér hlutabréf í einhverju fyrirtæki (Forseti hringir.) sem er í heilbrigðisþjónustu og fæ arð af því hlutabréfi er ég ekkert að lækna neinn. Ég er ekki að vinna þá við lækningar. Ég keypti mér bara hlutabréf. (Forseti hringir.) Og arðurinn er afraksturinn af því.