149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

byggðakvóti.

[10:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan tek ég á margan hátt undir þau sjónarmið sem koma fram í máli hv. þingmanns. Ég bendi hins vegar á að þegar við erum að ræða um það að ríkið fari að úthluta með öðrum hætti heimildum sem í pottunum eru þarf fyrir það fyrsta að velja þau sveitarfélög sem eiga að fá úthlutun þessara takmörkuðu gæða. Eftir standa síðan sveitarfélögin með það verkefni að þurfa að velja á milli einstaklinga eða fyrirtækja innan sinna vébanda. Það sem ég er fyrst og fremst að draga upp hér er að það er ekki einfalt að úthluta verðmætum sem felast í aflaheimildum. Það kann vel að vera að sveitarfélögunum verði það lagnara en það regluverk sem ríkið hefur sett um pottana, ég er þó ekki viss um það. Við höfum líka harðvítugar deilur innan smárra samfélaga sem bera vott um gríðarleg átök á milli hagsmunaaðila í litlu samfélagi um þau takmörkuðu gæði sem felast í aflaheimildum.

Svo ég nefni það líka, (Forseti hringir.) sem er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir, er fleira í lífinu en fiskur. Ég er ekki viss um að við reisum við bágar byggðir endilega með 50 eða 100 tonnum af aflaheimildum til viðbótar við það sem fyrir er.