149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

lögreglunám.

[10:39]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Háskólinn á Akureyri tók við lögreglunámi af Lögregluskóla ríkisins eftir útboð Ríkiskaupa árið 2016. Til að halda því til haga var námið sett á háskólastig, það var sem sagt ekki aðeins flutt. Strax var tekið inn í námið það sama haust, 2016, þá var þetta diplómanám og hugsað fyrir verðandi og starfandi lögreglumenn. Nú í haust komast aðeins inn 45 nemar í gegnum samkeppnispróf, en 180 sóttu um. Námið er nú þrískipt; BA í lögreglu- og löggæslufræðum, diplóma í lögreglufræði og svo diplóma í lögreglufræði fyrir starfandi lögreglumenn.

Starfsnámið sem við þekkjum er algjörlega og enn þá á vegum Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar sem er staðsett í Reykjavík. Ég gef mér að Háskólinn á Akureyri myndi gjarnan vilja sjá allt námið fara til HA, Háskólans á Akureyri, bæði starfsnám og svo þennan bóklega hluta. Öll aðstaða er til staðar í Háskólanum á Akureyri, í bæjarfélaginu einnig, hvort sem okkur finnst það góðar eða slæmar fréttir.

Því vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra:

Hver er reynslan af þessu lögreglunámi? Telur ráðherra að kennslan sé nógu vel fjármögnuð?

Að lokum: Mun ráðherra beita sér fyrir því að auknir fjármunir fáist til þess að fjölga menntuðum lögreglumönnum?