149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

breytingar á LÍN.

[10:45]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það verður með sanni sagt að ákveðinn kraftur hafi fylgt hæstv. menntamálaráðherra inn í starfið. Ég tala örugglega fyrir munn margra þegar ég segi að hægt sé að taka undir stefnu hennar og sýn á uppbyggingu menntamála á mörgum sviðum. Það verður því að segjast eins og er að það kom mér pínulítið á óvart, ekki síst í ljósi þess að fyrr á árinu svaraði hæstv. ráðherra mér því að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af aðgerðaleysi, og ég hélt að sú yrði raunin, að í þingmálaskrá hæstv. ráðherra er hvergi talað um breytingar á LÍN.

Það eru langþráðar breytingar sem stúdentar kalla eftir, mér skilst að níu formenn stúdentaráðs hafi starfað á þeim tíma sem endurskoðunin hefur staðið yfir. Hæstv. forsætisráðherra kom á sínum tíma fram með frumvarp sitt og síðan kom eftirmaður hennar, Illugi Gunnarsson, líka með sitt frumvarp þannig að að mínu mati er í raun búið að rýna allt í drasl, öll gögnin liggja fyrir. Það þarf að fara að taka ákvörðun um það hvenær og með hvaða hætti eigi að leggja fram frumvarp um lánasjóðinn. Stúdentar þurfa fyrirsjáanleika eins og við öll. Stúdentar þurfa ekki síst að sjá fyrir hvernig kerfið verður uppbyggt. Hvernig verður greiðslum af afborgunum háttað? Hvernig verður húsnæðismarkaði fyrir stúdenta háttað? Kallað er eftir svörum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hyggst ráðherra ekki leggja fram frumvarp, eins og kemur reyndar fram í fjárlagafrumvarpinu, um LÍN fyrr en næsta vetur? Er hæstv. ráðherra að segja að við þurfum að bíða, og ekki síst stúdentar, eftir frumvarpi og lagasetningu og lögum um LÍN alveg þar til veturinn 2020–2021? Það er hægt að taka heila háskólagráðu fram að þeim tíma.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er frumvarps ekki að vænta fyrr en á næsta ári? Er ekki hægt að hraða þeirri mikilvægu vinnu?