149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

breytingar á LÍN.

[10:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin er að gera mjög mikið fyrir háskólastigið. Við erum að stórauka fjármuni til háskólastigsins, eins og ég nefndi hér fyrr; aukningin er 5% á milli ára, og nú stefnir allt í að við náum OECD-meðaltalinu í framlagi á hvern nemanda. Það hefur ekki gerst áður og er mikið fagnaðarefni.

Ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum að vanda til verks og knýja á um að klára frumvarp er varðar endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Námsmenn eru með tvo fulltrúa í nefndinni og við eigum í mjög góðu samstarfi og mjög hreinskiptnum umræðum um það hvernig við eigum að þróa lánasjóðinn. Hins vegar hefur ekki átt sér stað heildarendurskoðun á lánasjóðnum, ef ég man það rétt, síðan 1992.

Hv. þingmaður sem beindi fyrirspurninni til mín var einmitt ráðherra í fjögur ár og ekki var mikið að gerast á þeim tíma hvað það varðar að bæta hag námsmanna. Tveir ráðherrar hafa gert atlögu að því að breyta lánasjóðnum og ástæða þess að mitt frumvarp kemur ekki fyrr fram en 2019 er sú að ég er að reyna að læra af því sem miður fór og hvernig við getum gert þetta. Það er alveg ljóst að blikur eru á lofti hvað þetta varðar, til að mynda sú staðreynd að fleiri íslenskir námsmenn taka lán hjá norrænum lánasjóðum en hér.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þetta er mjög brýnt mál en það vill þannig til að við erum að reyna að vanda okkur og leita eftir víðtæku samráði og samvinnu við stúdenta og alla þá sem hafa komið að þessu máli.