149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

heræfingar NATO.

[10:56]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Já, það er alveg rétt að við höfum fengið ákveðnar kynningar á þessu og fengum eina 7. febrúar, eins og ég rakti áðan, og aðra í gær. Munurinn á þessum tveimur kynningum var fyrst og fremst fólginn í þessum aukna fjölda skipa. Talað er um landgöngupramma og loftpúðaskip, 30 talsins var talan sem ég fékk í gær. Ef það eiga að vera 120 hermenn eða þar um bil erum við að tala um fjóra á skip sem hljómar frekar óraunhæft.

Það er mikilvægt að allar svona upplýsingar komi fram vel og skilmerkilega. Ég trúi hæstv. ráðherra þegar hann segir að hann vilji gæta gagnsæis en ég verð samt að vera meðvitaður um það: Var þetta borið t.d. undir hæstv. forsætisráðherra sem er formaður þjóðaröryggisráðs og var hún með í ráðum í öllu þessu plani frá upphafi eða er þetta fyrst og fremst á hendi hæstv. utanríkisráðherra?