149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[11:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það var eitt af mínum fyrstu verkum að skipa starfshóp sem niðurstaðan varð að myndi fjalla um að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu til þess að fara heildstætt yfir hvað við getum með kerfislægum hætti, við sem störfum annars vegar á vettvangi stjórnmálanna og hins vegar á vettvangi stjórnsýslunnar, gert til þess að efla traust og hvaða undirstöðuþættir þurfi að vera til staðar til þess að jarðvegur skapist fyrir að efla traust á þessum þáttum.

Ýmsir hafa orðið til að gagnrýna þetta og sagt að það sé til lítils að skipa starfshóp um þessi mál. Þingmenn og stjórnmálamenn þurfa allir að hegða sér vel og þá muni þetta koma af sjálfu sér. En það tel ég ekki rétta nálgun því að við sem hér stöndum og störfum þurfum auðvitað að horfa á þessi mál með kerfislægum hætti, þ.e. hvernig við sníðum ramma utan um kerfið til þess að efla frekar traust. Síðan erum við öll mennsk sem störfum innan þessa kerfis og hegðum okkur með alls konar hætti. Það er ekki mitt hlutverk né neins hér inni að segja til um það hvernig sú hegðun á að vera, en það er mikilvægt að við komum okkur saman um þann ramma sem við teljum ásættanlegan. Það var hlutverk þessa starfshóps, að hjálpa okkur að gera tillögur um hvernig sá rammi gæti verið.

Mig langar að nýta þann tíma sem ég hef hér til þess að fara yfir þessar tillögur. Ég mun síðan hlusta vel eftir því sem þingmenn segja því að efni þessa máls er þannig að það snýst ekki um að einhver einn leggi fram tillögur sem síðan eru samþykktar eða þeim hafnað af meiri hluta eða minni hluta heldur snýst þetta verkefni um það að við sem hér störfum saman komum okkur saman um það hvaða ramma við eigum að hafa um okkar störf.

Siðareglur fyrir þingmenn eru t.d. tiltölulega nýlegt fyrirbæri. Við getum velt því fyrir okkur heimspekilega hvort við teljum þörf á slíkum reglum. Ég segi tvímælalaust já við þeirri spurningu vegna þess að mjög margt í okkar störfum snýst einmitt um það að við getum vegið og metið og tekið afstöðu út frá ákveðnum siðferðilegum viðmiðum. Þau eru breytileg. Siðferðileg viðmið sem við störfum samkvæmt í dag eru ekki þau sömu og þóttu kannski eðlileg fyrir 20 árum. Það sama á við um öll samfélagsleg mál. Það er ekkert langt síðan samkynhneigð þótti ósiðleg, svo dæmi sé tekið. Það er ekki langt síðan og er enn þá deilt um hver eigi að vera siðferðileg viðmið þegar við ræðum um fóstureyðingar. Hve þungt á viðmiðið um rétt konunnar til að ráða yfir eigin líkama að vega miðað við rétt hins ófædda barns? Dæmigert siðferðilegt spursmál sem við vitum að hefur breyst milli ára, milli tíma, og stefnur og straumar hafa mikið um að segja. Sömuleiðis hljóta tiltekin siðferðileg spursmál að koma upp í störfum okkar sem hér störfum.

Þá er mikilvægt að við komum okkur sem best saman um það innan hvaða ramma við viljum starfa. Það er í raun og veru fyrsta tillaga þeirrar nefndar sem ég setti á laggirnar, að við mótum okkur svokallaðan heilindaramma. Margir hafa hváð og spurt hvað heilindarammi sé. Það er umræða sem er mjög vaxandi á vettvangi alþjóðastofnana og í nágrannaríkjum okkar, þ.e. að stjórnvöld á hverjum stað og þar með talið stjórnsýsla, setji sér tiltekinn ramma um viðmið um heilindi í því hvernig við störfum. OECD hefur verið mjög framarlega í þessari umræðu og telur að þetta sé einn af lykilþáttunum í lýðræðissamfélagi, að við séum sammála um það hvernig við skilgreinum ákveðinn heilindaramma um okkar störf.

Síðan er lagt til í skýrslunni að ráðist verði í endurskoðun siðareglna ráðherra, starfsfólks stjórnsýslu og ríkisstarfsmanna. Eins og ég nefndi áðan snýst sú tillaga ekki um að einhver einn setji öðrum reglur, heldur miklu heldur um að við ræðum saman um það hér á þessum vettvangi. Að mínu viti ættum við síðan að taka þá umræðu dýpra, því að þetta er auðvitað bara stutt umræða hér þar sem við tæpum á mörgum atriðum. Við ræðum t.d. saman um það hvort við erum sátt við þær siðareglur sem við höfum undirritað sem þingmenn og skilað hér inn í umslagi að lokinni undirritun og hvað í störfum okkar við teljum að þessar siðareglur nái yfir og hvort það sé eitthvað sem við teljum að þær nái ekki yfir. Sömuleiðis er lagt til að setja siðareglur fyrir aðstoðarmenn ráðherra og hugsanlega fleiri hópa innan stjórnsýslunnar.

Töluvert er rætt um gagnsæi í miðlun upplýsinga og upplýsingarétt almennings. Það er í raun og veru stórmerkilegt þegar maður les söguna hversu stutt er síðan þessi hugsun kom fram — það tengist því sem ég nefndi hérna áðan um hvað siðferðisviðmið og viðmið um samfélagið breytast hratt, en líklega hef ég verið tvítug þegar fyrst eru sett upplýsingalög — að það sé bara eðlilegt að almenningur eigi rétt á upplýsingum um það sem er að gerast og að almenningur og fólk eigi að njóta jafnræðis gagnvart stjórnsýslunni, og ef ég man rétt var það tveimur árum áður þegar stjórnsýslulögin voru sett. Það er merkilega stutt síðan þessi hugsun kemur inn í íslenskt réttarfar, að það sé eðlilegt að fólk eigi rétt á upplýsingum.

Síðan þá höfum við endurskoðað upplýsingalögin einu sinni. Nú stendur yfir endurskoðun þeirra á nýjan leik. Meðal þess sem ég mun leggja til, því að upplýsingalögin heyra undir mitt ráðuneyti, er að þessi stofnun, Alþingi, muni fara undir upplýsingalög sem hún gerir ekki í dag, hið sama muni eiga við um dómstóla.

Það er líka hluti af tillögum nefndarinnar hins vegar að það sé sett ákveðin stefna um það hvernig við viljum miðla upplýsingum til almennings, að það sé meira frumkvæði í því hvernig upplýsingum er miðlað til almennings fremur en að almenningur þurfi að sækja sér upplýsingarnar.

Ég var að ræða það hér um daginn við hv. þm. Jón Þór Ólafsson að upplýsingalöggjöfin í Noregi er til að mynda með framsæknari upplýsingalöggjöf sem við sjáum í Evrópu. Þar er mikið lagt upp úr því að stjórnvöld hafi frumkvæði að því að birta upplýsingar þannig að almenningur þurfi í raun og veru ekki að óska eftir þeim sérstaklega. Það er hluti af því að efla traust þannig að gagnsæið sé meira.

Hagsmunaárekstrar og hagsmunaskráning er síðan tillaga frá nefndinni, þ.e. setja skýrar og samræmdar reglur um hagsmunaskráningu ráðherra. Nefndin horfði sérstaklega til skráningar sem nái til fleiri þátta, til að mynda skulda viðkomandi sem standa utan við það sem hafa verið kallaðar persónulegar skuldir, þ.e. húsnæðisskuldir í eigin húsnæði og námslánaskuldir eins og ég hef skilið það, en taki einnig til maka og ólögráða barna. Ég veit að þetta hefur verið rætt á vettvangi forsætisnefndar þingsins. Það er mín skoðun að þessar reglur þurfi ekki endilega að vera hinar sömu fyrir ráðherra annars vegar og þingmenn hins vegar því að það má segja að ráðherrar hafi flestir tvöföldu hlutverki að gegna. Þeir eru í hlutverki löggjafans og hins vegar framkvæmdarvaldsins, þeir eru embættismenn ásamt því að vera stjórnmálamenn. Það er ekki óeðlilegt að gerðar séu ríkari kröfur til þeirra um hagsmunaskráningu en til þingmanna. Þá er ég sérstaklega að horfa til reglna um hagsmunaskráningu vegna maka og ólögráða barna. Sú leið hefur til að mynda ekki verið farin annars staðar á Norðurlöndum nema í Danmörku að því er ég þekki best.

Eitt af því sem ég hef tekið eftir að hefur vakið umræðu enda kannski tiltölulega nýtt umfjöllunarefni er það sem nefndin kallar samskipti við hagsmunaverði, að það þurfi að skilgreina hverjir teljist til hagsmunavarða og setja reglur um samskipti við slíka aðila. Sömuleiðis leggur nefndin til að það þurfi að vera ákveðinn kælingartími eins og það er orðað milli þess sem fólk lætur af störfum sem stjórnmálamaður og fer að vinna fyrir hagsmunaaðila.

Við búum í litlu landi og ég sagði einmitt við formann nefndarinnar: Það er nú bara þannig hér á landi að ég fer í sund og sest í heita pottinn, þá situr bara einn hagsmunavörður hérna megin við mig og annar hagsmunavörður, ef við getum orðað það þannig, hinum megin við mig. Að sjálfsögðu förum við að tala um alls konar mál. Við förum að tala um ástand vegakerfisins, stöðuna í sjávarútvegi, stöðu sauðfjárbænda. Þetta er bara það sem gerist á Íslandi. Kannski er það það sem er svo fallegt við Ísland. Ég sagði: Á ég þá að skrá þetta? Fór í sund, hitti þennan og þennan, ræddi um þetta og þetta? Nei, auðvitað snýst þetta ekki um það. Og auðvitað snýst þetta um að við beitum heilbrigðri skynsemi líka þegar við ræðum þessa hluti. Þetta er hins vegar mál sem hefur verið til umræðu víða á Norðurlöndum en eru ekki endilega komnar neinar reglur um annars staðar. Reglurnar eru skýrastar í þeim löndum þar sem hagsmunaverðirnir hafa mest ítök.

Tökum sem dæmi eins og frá Bandaríkjunum þar sem að mestu leyti er greitt fyrir stjórnmálastarf af hagsmunaaðilum með styrkjum til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna. Við höfum sem betur fer tekið þá ákvörðun hér á landi að það sé lýðræðisleg skylda hins opinbera að styðja við stjórnmálaflokka, að það sé lýðræðisleg skylda að styrkja starf stjórnmálaflokka, en að sama skapi setjum við reglur um framlög einkaaðila til stjórnmálaflokka og tryggjum gagnsæi í þeim framlögum. Ég tel að það sé mun betra kerfi. Það þýðir auðvitað að þessi samskipti eru með öðrum hætti en til að mynda í Bandaríkjunum. En við þurfum auðvitað að ræða það hér og ég hef áhuga á að heyra hvað þingmenn segja um þessi samskipti. Að sjálfsögðu vitum við það að samhliða því að við höfum til að mynda aukið töluvert samráð á fyrri stigum um stjórnarfrumvörp og setjum þau í svokallaða samráðsgátt, sem ég vona að hv. þingmenn séu flestir búnir að kynna sér, þá sjáum við að það eru auðvitað fyrst og fremst hagsmunaaðilar sem senda inn umsagnir um slík frumvörp. Það er ekki endilega fólkið í heita pottinum sem fer að senda inn umsagnir um frumvörp á samráðsgáttina enda hefur það væntanlega ýmislegt annað að gera líka.

Mér finnst þetta vera umræða sem við þurfum að hefja hér á landi eins og er hafin annars staðar á Norðurlöndum, hvernig við viljum sjá þetta þróast og að mínu viti á markmiðið fyrst og fremst að vera gagnsæi. Um það er fjallað í skýrslu nefndarinnar að tilraun ráðherra til að opna dagbækur sínar sé ein tilraun í þessa átt. Það er hins vegar hvatt til þess að við setjum skýrari ramma um þá tilraun þannig að það liggi fyrir hvað nákvæmlega eigi heima í opnum dagbókum og hvað ekki.

Ég ætla að hlaupa hér hratt yfir aðrar tillögur, til að mynda um vernd uppljóstrara, en ég vil upplýsa þingið um að vinna við það frumvarp er hafin í nefnd nokkurra ráðherra um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Það er fjallað líka um almenningssamráðið. Ég vil nefna sérstaklega samráðsgáttina sem ég held að geti skipt miklu í því. Þar kemur Ísland, svo við horfum líka til þess sem vel er gert, mjög vel út í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að undirbúningi lagasetningar með tilliti til þess hvernig hún er undirbúin og við hvern er haft samráð. Ísland hefur verið að fara mjög hratt upp alla lista um það að við séum að nýta öll okkar tæki og tól til þess að eiga aukið samráð á fyrri stigum. Það er mikið ánægjuefni.

Síðan er rætt sérstaklega um Stjórnarráðið og stjórnsýsluna. Umræða um þetta beinist mjög oft að okkur stjórnmálamönnum því að það erum við sem erum í beinni útsendingu hér allan daginn í okkar vinnu, en það á ekki við um starfsfólk Stjórnarráðsins. Það er auðvitað mjög mikilvægt líka að við horfum til þess að þar séu skýrar reglur settar. Af því að ég nefndi hér að starfa fyrir hagsmunasamtök á það ekki bara við um stjórnmálamenn, það á ekki síður við um þá sem starfa innan stjórnsýslunnar, ekki satt, sem vinna í nákvæmlega sömu málum með sama aðgengi að upplýsingum og stjórnmálamenn á hverjum tíma. Þetta er hlutur sem mér finnst hafa verið lítið ræddur. Ef við ætlum að tala um stjórnmálamenn þá megum við ekki gleyma þeim sem vinna líka í stjórnsýslunni.

En snýst þetta þá allt um það að við séum öll ómöguleg? Nei, ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi, þetta snýst ekki um að einhver einn segi öðrum fyrir verkum eða við séum öll að gera hlutina rangt núna. Ég held hins vegar að það sé okkur öllum sem hóp mjög dýrmætt að eiga þessa umræðu með opnum hætti. Við getum haft ýmsar skoðanir á tillögum nefndarinnar, rökstuddar skoðanir, hvort við teljum þær góðar eða slæmar, til gagns eða ekki, en það er mjög mikilvægt fyrir okkur í öllu falli að fara í gegnum þessa umræðu af því að okkar störf skipta svo miklu máli fyrir samfélagið. Það skiptir máli að það ríki traust á okkar störfum. Það er ekki ásættanlegt hversu hægt hefur gengið að byggja það traust upp aftur eftir hrun. Við vitum að það var mjög mikið fyrir hrun, mun meira en til að mynda í nágrannalöndum okkar á sama tíma. En að sama skapi hefðum við örugglega öll viljað sjá þetta traust byggjast hraðar upp. Ég held að við eigum tækifæri í því, m.a. með því að nálgast þessa umræðu með opnum og málefnalegum hætti.