149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[11:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg og ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hennar innlegg áðan. Það sem ég vildi koma inn á í þessari umræðu og í tengslum við hana er mikilvægi þess að stjórnvöld sýni gott fordæmi og ráðdeildarsemi í ríkisfjármálum og framkvæmd þeirra svo ekki sé nú talað um að stjórnvöld fari að lögum sem þau hafa sett er varða ríkisfjármálin.

Þetta skiptir miklu máli þegar við ræðum traust á stjórnmálum. Á þessu er því miður misbrestur sem gerir það að verkum að það dregur úr tiltrú og trausti almennings á stjórnmálum. Lög um opinber fjármál tóku gildi 1. janúar 2016. Þeim er m.a. ætlað að tryggja styrka og ábyrga stjórn opinberra fjármála. Með lögunum eiga fjáraukalögin að vera úr sögunni og í raun einungis notuð í neyðartilfellum.

Fyrir skömmu las ég í fréttum að fjármálaráðherra ætlar, fyrir hönd ríkissjóðs, að lána Íslandspósti 500 millj. kr. og að það eigi að gerast í gegnum fjáraukalög. Eins og venjulega hjá ríkisstjórninni fær maður fréttir sem þessar í blöðunum en ekki í gegnum fjárlaganefnd sem er hinn lögboðni farvegur. Fjáraukalögin á ekki að nota nema í neyðartilfellum. Ég efast stórlega um að málefni Íslandspósts flokkist undir neyðartilfelli í ríkisfjármálum, enda held ég að það sé ekki vanþörf á að skoða ýmislegt í rekstri þess fyrirtækis áður en ríkissjóður lánar því 0,5 milljarða sem við vitum ekkert hvenær við fáum til baka.

Mál þetta hefur aldrei verið borið upp í fjárlaganefnd og á bls. 12–13 í fjárlagafrumvarpinu er fjallað um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir og þar er ekki að finna staf um þessar 500 milljónir. Það líða ekki nema nokkrir dagar frá því að fjárlagafrumvarpið kemur út til þess að fjármálaráðherra ætlar að lána 0,5 milljarða sem ekkert er minnst á í frumvarpinu og engin heimild er fyrir.

Þessi lánveiting á að vera í fjárlagafrumvarpinu og hvergi annars staðar ef á annað borð á að lána þessa peninga. Þessi gjörningur hæstv. fjármálaráðherra er svo sannarlega ekki til þess fallinn að auka tiltrú á lögunum um opinber fjármál eða á stjórnmálum yfir höfuð.

Síðan er ársreikningur ríkisins sem enn er ekki kominn út, á sama tíma og félög í eigu almennings þurfa að sæta sektum skili þau ekki ársreikningum á réttum tíma. Stjórnvöld verða að sýna gott fordæmi og þau verða að sýna ráðdeildarsemi í fjármálum ríkisins, ekki síst þegar kemur að opinberum framkvæmdum. Geri þau það ekki veldur það vantrausti og reiði almennings. Fullveldisfundurinn á Þingvöllum í sumar er gott dæmi um óstjórn í fjármálum ríkisins og þegar kemur að opinberum framkvæmdum. Kostnaður vegna fundarins fór 100% fram úr áætlun. Hefur hann gengið fram af fólki og skal engan undra.

Sjúklingar eru sendir til útlanda í aðgerðir þar sem þær eru þrisvar sinnum dýrari en á Íslandi. Ríkissjóður borgar jarðgöng fyrir einkafyrirtæki upp á tæpa 3 milljarða, göng sem almenningur má ekki nota, á sama tíma og verkefni hrópa á viðhald víða í þjóðvegakerfinu.

Herra forseti. Því miður ríkir agaleysi í ríkisfjármálum á mörgum sviðum og á meðan svo er mun aldrei takast að auka tiltrú almennings og traust á stjórnmálum.