149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[11:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Það er réttmætt vantraust til ráðamanna. Þetta er tíðarandinn á Vesturlöndum alveg frá hruni og í dag segja Financial Times og fjármálapressan í heiminum að rótin að vandanum sé fjármálahrunið. Við vitum líka að mikill partur af þessu er upplýsingatæknin sem gerði okkur kleift að komast fram hjá miðstýringu stjórnvalda og stórra fjölmiðla, komast fram hjá þeirri miðstýringu í túlkun og miðlun upplýsinga. Það gerði okkur klárlega kleift að sjá spillinguna sem alltaf hefur verið þarna og að sjálfsögðu skapar slíkt réttmætt vantraust.

Fólk vill treysta. Við viljum öll treysta en við viljum bara ekki treysta í blindni. Það er þess vegna sem það er svo mikilvægt að efla annars vegar gagnsæið og um það er fjallað í þessari skýrslu. En það er líka mikilvægt að við getum látið þá sem bregðast trausti axla ábyrgð. Um það er nánast ekkert rætt í þessari skýrslu.

Við skulum fjalla um það sem rætt er í skýrslunni, ég ætla að gera það. Aðrir hafa fjallað um það sem vantar í skýrsluna og það verður líka að vera partur af þessari umræðu og koma inn í tillögur forsætisráðherra. Ég trúi að það séu raunveruleg heilindi í þessu, að bæta ástandið varðandi vantraust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

Fyrsta skrefið: Það er farið að ræða þetta hér áður en áfram er unnið með það. Það er gott skref. Tölum þá heiðarlega um það hvað vantar upp á. Skýrslan er skýr að því leyti að bæði stjórnvöld og Alþingi þurfi að skrá hagsmuni ráðamanna þannig að það minnki vantraust. Orðrétt segir í skýrslunni:

„Hagsmunaárekstrar er sá þáttur stjórnmála- og stjórnsýslu sem vekur hvað mesta andúð í samfélaginu.“

Einnig segir:

„Ef ekki er brugðist við mögulegri gagnrýni og hún ekki tekin alvarlega er það út af fyrir sig spillingarhvati.“

Það verður að bregðast við og við vonum að hæstv. forsætisráðherra geri það. En forsætisnefnd þingsins og forseti Alþingis verða líka að gera það. Það eru líka ábendingar í þá átt.

Það að leiðrétta hagsmunaskráningu ráðamanna þannig að menn geti raunverulega treyst henni er á ábyrgð forsætisráðherra í ríkisstjórn, forseta þingsins í forsætisnefnd í þinginu. Forsætisnefnd hefur verið að vinna að úrbótum en þar sem sú vinna stendur í dag vantar enn eitthvað upp á til að uppfylla skilyrðin sem nefndin sem skilaði þessari skýrslu um traust nefnir sem nauðsynlegan grundvöll til að almenningur geti treyst þingmönnum. Það vantar upp á í vinnu forsætisnefndar.

Þingflokkur Pírata ályktaði um þetta og sendi forseta Alþingis og fjölmiðlum í morgun ályktunina, sem hljómar svo:

„Þingflokkur Pírata gerir athugasemd við hagsmunaskráningu alþingismanna og leggur til að forsætisnefnd skoði hana betur í ljósi niðurstöðu starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Þingflokkur Pírata leggur líka til að Alþingi sýni gott fordæmi og innleiði að fullu í hagsmunaskráningu alþingismanna tillögur starfshóps ríkja gegn spillingu, GRECO.“

Við höfum ekki gert það, innleitt þær, samkvæmt þeim tillögum sem eru í forsætisnefnd. Það er talað um í skýrslunni að innleiða þær, það stendur að vísu ekki að fullu, en lengra. Ef við ætlum raunverulega að standa á bak við þessa skýrslu um traust almennings eða það vantraust sem er til staðar á stjórnmálum og stjórnsýslu og leiðrétta það þá verðum við að sýna gott fordæmi hér á Alþingi.

Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Samfylkingarinnar Helga Vala Helgadóttir, átti frumkvæði að því að fá höfunda skýrslunnar á fund nú í vikunni. Það er mikilvægt að nefndin afgreiði það mál á þann veg að hún álykti eitthvað um það og að sú ályktun sé rædd hér í þingsal svo að við höldum áfram samtalinu, að þetta sé ekki bara einn stuttur dagskrárliður í þinginu og svo einhvern veginn sópist þetta til hliðar. Það er það sem gæti gerst í þinginu nema við vökum yfir þessu og við sem erum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd köllum eftir því að það sé ályktað um þetta, við höldum áfram og ályktunin þarf að koma aftur hingað inn á þingfund og við ræðum hana.

Réttmætt vantraust í stjórnmálum er eitt mikilvægasta mál samtímans. Ef við lítum allt í kringum okkur sjáum við hvað vantraustið kostar okkur. Við þurfum því öll að vinna saman faglega og af heilindum. Mér sýnist enn þá að forsætisráðherra sé að vinna þetta af heilindum. Við munum sjá fyrir víst hvernig hún bregst við ábendingum mínum hér og ábendingum annarra þingmanna í dag. Hvað er hægt að gera betur nú þegar, og fyllilega, eftir því sem segir í skýrslunni? Hvað vantar upp á í þessari skýrslu til þess að við fáum raunverulega réttmætt traust, alla vega réttmætara traust, á stjórnmálunum?