149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[11:40]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við skýrslu starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra ágæta yfirferð á skýrslunni og það að hafa lagt hana hér fram. Nú þegar þessi skýrsla er fram komin, er þá ekki bara allt klappað og klárt og við komin með lausnir á því ástandi sem nú ríkir, ástandi sem lýsir miklu vantrausti almennings á stjórnmálum og stjórnsýslu? Líklega ekki.

Niðurstaða starfshópsins sem skýrsluna vann er sú að samkvæmt könnunum ríki hér meira vantraust á þessu sviði en á hinum Norðurlöndunum og er að hluta til skorti á stefnumörkun kennt um. Hér hafi ekki verið nægilega vel hugað að því að móta heildarstefnu um heilindi í stjórnmálum og stjórnsýslu og að eftirfylgni með aðgerðaáætlunum vanti. Fram kemur að þótt félagslegt traust sé meira í íslensku samfélagi en víða annars staðar og ekki sjáanleg nein merki um að fjari undan samfélagslegum stöðugleika sé vantraust á stjórnvöldum staðreynd. Það er vandi sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar til lengri tíma.

Starfshópurinn kemur vissulega með tillögur að lausnum. Þær skiptast í átta meginsvið og 25 einstakar tillögur. Sumar þeirra krefjast breytinga á lögum, aðrar þess að stjórnvöld setji sér sérstakar reglur, en líka kemur fram að flestar þessar aðgerðir krefjist ekki annars en að vilji sé fyrir hendi til að framkvæma þær og forgangsraða í samræmi við þær. Með viljann að vopni getum við sem sagt fundið leiðir til úrlausna og komið þeim í framkvæmd.

Fram kemur að hópurinn boðar engin nýmæli um traustskapandi aðgerðir heldur byggir tillögurnar á fyrri umræðum á innlendum og erlendum vettvangi um traust og heilindi sem undirstöðu góðrar stjórnsýslu og lýðræðislegra stjórnarhátta. Skýrslan er byggð á starfi alþjóðlegra stofnana á borð við OECD og GRECO sem eru viðurkenndar stofnanir sem sinna ráðgjöf til stjórnvalda víða um heim.

Rannsóknir fræðimanna sýna að sterk tengsl eru á milli trausts og ábyrgðar. Þær sýna einnig að framkoma og vinnubrögð stjórnvalda hafa afgerandi áhrif á viðhorf almennings til þeirra og ráða miklu um hvort traust fer vaxandi eða minnkandi.

Hæstv. forseti. Mælingar á trausti byggjast fyrst og fremst á viðhorfskönnunum þar sem fólk er beðið um að svara spurningum um viðhorf til stofnana, ákveðinna þátta, hópa eða málefna. Slíkar mælingar gefa vissulega takmarkaðar upplýsingar en gefa þó ákveðna mynd. En það skrýtna er að þótt hér ríki skortur á pólitísku trausti virðist það ekki hafa veruleg áhrif á kosningaþátttöku. Hegðun og framkoma okkar stjórnmálamanna hefur bein áhrif samkvæmt mælingum og þar getum við klárlega bætt um betur.

Sýnt hefur verið fram á með ótvíræðum hætti að lykilþættir vantrausts varða trú manna á hæfni stjórnvalda og opinbera þjónustu annars vegar og samræmi gilda og hegðunar hins vegar. Sýna þarf fram á að boðuð gildi séu í raun og veru virt. Það er eðlilegt.

Samkvæmt niðurstöðum í skýrslunni eru leiðirnar fjórar.

Númer 1: Stjórnvöld þurfa að vera tilbúin að sætta sig við skýrar meginreglur og fara í raun eftir þeim. Sjálfsagt mál.

Númer 2: Stór verkefni og atburðir sem hljóta mikla athygli séu nýtt til að sýna að slíkar meginreglur stýri ákvörðunum. Augljóslega.

Númer 3: Pólitískir leiðtogar sýni gott fordæmi, t.d. með auknu gagnsæi, og sýni vilja til að deila mikilvægum upplýsingum með almenningi. Er það ekki sjálfsagt?

Númer 4: Viðmið séu hin sömu í öllu stjórnkerfinu og varði alla jafnt, kjörna fulltrúa sem starfsfólk stjórnsýslu, og birtist með sama hætti í samskiptum almennings og yfirvalda.

Þetta er í rauninni ekki flókið og stigin hafa verið nokkur góð skref í þá átt að fylgja þessum leiðum, t.d. með því að opna bókhald og hafa meira upplýsingaflæði. En okkur er vandi á höndum. Staðreyndin er sú að skortur á trausti setur mark sitt á alla umræðu og viðhorf til stjórnvalda. Það er einhver skekkja í þessu öllu saman. Ég hef tilhneigingu til að trúa því að allflestir sem gefa sig pólitíkinni á vald fari af stað með góðum ásetningi og vilji vinna samfélaginu gagn. En umræðan er á þann veg að t.d. á Alþingi sé samansafn eiginhagsmunaseggja sem gangi annarlegra erinda fyrir óræðan hóp hagaðila. Þeirri umræðu er erfitt að breyta en það er þó í höndum okkar alþingismanna að efla traust á Alþingi. Við gerum það ekki með því að tala starfið niður, ekki með því að segja eitt og gera annað, ekki með því að virða ekki niðurstöður funda um fyrirkomulag starfsins og ekki með því að fara í manninn. Það gerum við heldur ekki með því að vera alltaf sammála um allt.

Hæstv. forseti. Raunin er sú að Ísland mælist meðal hæstu þjóða í könnunum um lífsgæði. Við erum á skrýtnum stað þegar eðlilegt þykir að tala eins og hér sé allt í kaldakoli þegar raunin er önnur. Tökumst nú á um það hvernig við ætlum að halda okkur meðal fremstu þjóða og hvernig við ætlum að halda utan um allt okkar fólk.

Að þessu sögðu tel ég mikilvægt að við nýtum okkur þessa skýrslu sem leiðarljós til umbóta.