149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[11:51]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í inngangi þessarar ágætu skýrslu kemur fram að rannsóknir sýni að framkoma og vinnubrögð stjórnvalda hafi afgerandi áhrif á viðhorf almennings til þeirra og ráði miklu um hvort traust fari vaxandi eða hvort það minnkar. Enn fremur að rannsóknir fræðimanna sýni að sterk tengsl séu á milli trausts og ábyrgðar og takist stjórnvöldum ekki að gefa almenningi til kynna að starfsemi stjórnkerfisins sé í höndum hæfs fólks, jafnt kjörinna fulltrúa sem starfsmanna í stjórnkerfinu, getur traust ekki skapast. Á sama hátt grafi það undan góðum stjórnarháttum að ekki sé nægilega hugað að ásýnd stjórnmála og stjórnsýslu og að vantraust, verðskuldað eða ekki, dragi sjálft úr möguleikum stjórnvalda til að ná árangri. Þannig megi sjá hvernig vítahringur vantrausts getur orðið til.

Herra forseti. Traust er þungamiðja þessarar skýrslu. Í umræðu um vantraust á hæstv. dómsmálaráðherra á síðasta þingi sagði sá sem hér stendur m.a., með leyfi forseta:

„Traust og ábyrgð eru stór orð og rík að innihaldi. Traust og ábyrgð eru oft notuð í samhengi hvort við annað. … Við treystum fólki til einhvers, þá nýtur það trausts okkar. Við gerum oft hluti í trausti einhvers sem fólk segir og við treystum. Það er traustsins vert. Því miður gerist það að fólk bregst trausti okkar. Það segir eitt en gerir annað. Það leynir okkur atriðum sem máli skipta. Það segist hafa farið í einu og öllu að reglum, en gerir það ekki. Andstaða trausts er vantraust. Þegar einhver bregst trausti okkar er afleiðingin vantraust. Við treystum viðkomandi ekki lengur. … Trúnaður hefur verið rofinn.

Fólk ber ábyrgð á gjörðum sínum og á að standa á þeim reikningsskil. Það er almennur og viðtekinn sannleikur og einn af grunnþáttum samfélagssáttmála okkar. Stundum segist fólk bera fulla ábyrgð á einhverju. Þá treystum við því. Oft er það kallað að axla ábyrgð. … Fólk firrir sig ábyrgðinni eða segist hafa axlað ábyrgð með einhverjum hætti sem er algjörlega marklaus.“

Herra forseti. Því miður eigum við mýmörg dæmi um að stjórnmálamenn segi eitt en geri annað. Fyrir kosningar er sagt fullum fetum: Við förum aldrei í ríkisstjórn með þessum flokki. Nokkrum dögum seinna er sest að ríkisstjórnarborði með viðkomandi eins og ekkert sé. Gefin eru kosningaloforð þar sem heitið er gulli og grænum skógum en þegar til kastanna kemur reynist græni skógurinn sölnað rjóður. Boðað er til fundar sem á að kosta 45 milljónir en hann kostar allt í einu 87 milljónir.

Í umræðum hér falla oft sérkennileg orð, stundum í hálfkæringi, stundum eru menn að reyna að vera sniðugir. Mér líkar það illa og tel það ekki til þess að auka traust á þinginu að líkja því við að sitja í gæsluvarðhaldi að hlusta á pólitískar umræður í þessum sal, sérstaklega þegar það er sagt á sama degi og er verið að endurupptaka mál þar sem borgarar voru ranglega hafðir í gæsluvarðhaldi í tvö ár. Það er ekki sómi að slíkum orðum úr þessum stól.

Forseti. Traust er áunnið. Við stjórnmálamenn verðum að ávinna okkur traust með orðum okkar og gjörðum. Það er engin skýrsla eða tillögur frá mætu fólki sem leysa okkur undan því. Það gerir flókið regluverk ekki heldur. En það er náttúrlega alls ekki þar með sagt að engar reglur þurfi, alls ekki. Ég tek þar undir með því sem hæstv. forsætisráðherra sagði í framsöguræðu sinni með þessari skýrslu.

Forseti. Skýrsla starfshópsins er vönduð og margar athyglisverðar tillögur hafa verið settar þar fram um bætt regluverk, upplýsingagjöf og verkferla. Við í Viðreisn munum að sjálfsögðu skoða þetta allt saman vel og styðja við það sem til bóta horfir. Það er ekki hægt að ræða þessa skýrslu og allar tillögurnar hér uppi í þessari stuttu ræðu og verður því að nægja að staldra við fátt eitt.

Í 3. kafla í skýrslunni er fjallað um gagnsæi og miðlun upplýsinga. Þar er kynntur til sögunnar vítahringur vantraustsins sem ég nefndi hér að framan. Vítahringurinn felst í því að stjórnvöld eru treg til að veita upplýsingar og tregða til að veita upplýsingar veldur tortryggni gagnvart þeim upplýsingum sem veittar eru. Þá kemur fram ríkari krafa um aðgang að „öllu“ eins og sagt er. Upplýsingarnar sem koma þá frá stofnununum eru túlkaðar á versta veg og upplýsingarnar valda tortryggni. Af því að upplýsingarnar valda tortryggni fara stofnanirnar að óttast að veita þessar sömu upplýsingar. Síðan heldur vítahringurinn áfram.

Ég held að hér þurfi fyrst og fremst að verða hugarfarsbreyting. Meginreglan er að sjálfsögðu sú að veita á allar upplýsingar sem hægt er og aðgengi á að vera að öllum upplýsingum sem hægt er. Upplýsingar eru þannig að menn reyna að stýra þeim út frá sínum stofnunum — það eru upplýsingafulltrúar, ég er ekki að kasta rýrð á þá ágætu starfsstétt en mér hefur fundist að upplýsingafulltrúar í stjórnkerfinu gegni fyrst og fremst því hlutverki að sinna skaðaminnkun, „damage control“. Þeir taka yfirleitt ekki til máls fyrr en í óefni er komið og þá fara þeir að reyna að bjarga viðkomandi stjórnvaldi eða ráðherra úr þeirri klípu sem hann er kominn í.

Þessu þurfum við að breyta og hér þarf frumkvæði frá stjórnvöldum og þetta eigum við að gera.

Að síðustu vil ég aðeins nefna það sem sagt er um samskipti við hagsmunaaðila og hagsmunavörslu. Í samfélaginu erum við alltaf að takast á um völd og áhrif. Þar skiptir aðgangur að þeim sem fara með valdið miklu máli. Það felur í sér vissa spillingarhættu ef sá aðgangur er mismunandi. Stundum hefur verið sagt, ég vona að það sé ekki raunin lengur, að þegar menn hafi komið ofan í ráðuneyti hafi menn haldið að þar væri stofugangur hjá lækni því að þar fara hagsmunaaðilarnir úr einu herbergi í annað og segja stjórnvaldinu til. Þess vegna held ég að það sé augljóst mál að við þurfum að skoða mjög vandlega þetta samband og vissulega er það þannig að við hittum fólk í heita pottinum og það er erfitt að nálgast þetta allt saman. Fyrsta skrefið sem lagt er til í þessari skýrslu er að menn séu skráðir og haldið sé nokkuð ítarlegt bókhald um þetta, vegna þess að stóra hættan er einmitt sú að í heita pottinum sé rætt um ýmis mál sem leita síðan inn í gegnum stjórnsýsluna. Við þessu verður að bregðast og þar er eina ráðið að upplýsa um öll samskipti stjórnvalda og hagsmunaaðila.