149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[12:00]
Horfa

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það má með sanni segja að ég hafi komið af fjöllum inn á Alþingi, beint úr fyrstu leit á Skaftártunguafrétti með stuttri viðkomu í réttinni um helgina. Harðvinnandi sveitungar mínir hristu hausinn góðlátlega yfir þessu uppátæki að ætla að vera í Reykjavík að slæpast í heila viku þegar nóg er að gera um haust á stóru sauðfjárbúi.

En þau sjá í gegnum fingur sér við mig af því að ég hef alltaf verið svo skrýtin að það er farið að venjast. Fáum dettur nefnilega fyrst í hug að þetta geti verið gaman, gefandi og mikil og krefjandi vinna, þar sem ímynd þessa vinnustaðar, Alþingis, er neikvæð. Ég skynja vantrú og leiða á pólitíkinni og mér fannst þessi leiði t.d. nánast áþreifanlegur í áhugaleysinu í kringum síðustu tvennar kosningar.

Ég hef verið töluvert í sveitarstjórnarpólitíkinni og þar er líka þessi leiði merkjanlegur. Fólk nennir ekki að pæla í þessu, langar kannski alveg að koma að einhverjum sjónarmiðum eða breyta einhverju en guggnar á að láta vaða í framboð. Það langar ekki í vesenið sem fylgir þessu, þessa miklu vinnu, lítil eða engin laun og mikla og oft og tíðum persónulega og ósanngjarna gagnrýni.

Í sveitarstjórnarpólitíkinni, sérstaklega í litlum samfélögum, getur nálægðin haft bæði kosti og ókosti. Kostir eru að kjörnir fulltrúar eru vanalega stutt undan, íbúarnir þekkja viðkomandi og geta auðveldlega rætt málin og komið sjónarmiðum á framfæri. Þessi sama nánd getur hins vegar líka verið ókostur. Í litlum samfélögum eru kjörnir fulltrúar mjög oft ýmist bullandi vanhæfir við hin ýmsu mál vegna skyldleika og tengsla við fólkið sem inn í þau fléttast eða mjög á gráu svæði vegna mikilla tengsla þótt það falli utan lagaramma um vanhæfi.

Þessi margvíslegu tengsl og mikla nálægð getur bæði skapað aukna hættu á ýmiss konar spillingu og svo það sem er lítið betra, það getur vakið upp tilhæfulausan orðróm um frændhygli og vafasöm vinnubrögð. Þetta fælir fólk frá þátttöku í sveitarstjórnarmálum, engan langar að þurfa að vera með leiðindi við skyldfólk og vini og engan langar heldur að fá á sig ásakanir um mismunun og óheiðarleika.

Svo kemur að tengingu sveitarstjórnarfólks og landspólitíkur. Það eru kjördæmavikur og önnur samskipti við þingmenn. Ár eftir ár hittir sama sveitarstjórnarfólkið sömu þingmennina og ber upp sömu óskirnar um sömu áherslumálin. Þingmennirnir eru fullir áhuga, skilnings og góðs vilja og svo gerist bara voða lítið eitt árið enn. Rafmagnslínurnar eru áfram eins fasa, ljósleiðarinn bara fjarlægt ákall froðufellandi sauðfjárbónda þegar léleg nettenging hendir honum út úr Fjárvís í fimmta skipti sama kvöldið og niðri á þjóðvegi verða brýrnar jafn einbreiðar á morgun og þær voru í gær. Þá þverr trú sveitarstjórnarfólks á þingmennina og trú íbúanna á bæði sveitarstjórnarfólk og þingmenn af því að í hraða nútímans höfum við ekki skilning á hægvirkri stjórnsýslu og skorti á fjárveitingum.

Svo finnst okkur auðvitað líka, með okkar mannlega eðli, alltaf vera forgangsraðað í þágu allra annarra en okkar. Þá er fljótlegasta leiðin að kenna um leti og sviksemi þingmanna og dugleysi ráðherranna. Það má sjá á fréttamiðlum hvenær þingfundur hefst á daginn. Hefjist hann ekki fyrr en kl. 13 dregur fólk, sem mætti til sinnar vinnu um kl. 8 um morgun, þá ályktun að mannskapurinn í þinghúsinu hafi legið í bælinu fram undir hádegi af því að það er auðveldara að draga þá ályktun en að kynna sér hvaða vinna raunverulega felst í því að vera þingmaður.

Nú væri gaman að vera með svör á reiðum höndum við því hvernig bæta megi trú almennings á stjórnmálunum í landinu, en því miður held ég að engar töfralausnir séu til. Það er ákaflega fljótgert að missa niður traust og það gerðist í hruninu 2008, þá gjörbreyttist stemningin, álitið og talsmátinn gagnvart stjórnmálamönnum. Að byggja upp traust er hins vegar langtímaverkefni og þá er að mínu mati sterkast einmitt að geta vísað í verkferla, hannaða til að halda frá spillingu og frændhygli, og sem nota má til að bregðast við gagnrýni og veita markvissar upplýsingar.

Fólk tortryggir og dæmir það sem það ekki þekkir. Upplýsing og opin stjórnsýsla eru að mínu mati það sem getur hægt og rólega snúið ofan af þessu en það er hins vegar þrautin þyngri að komast að í öllu því upplýsinga- og afþreyingarflæði sem á almenningi dynur. En eins og einn sveitungi minn sagði oft: „Það er leitt að reyna það ekki.“