149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[12:05]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem er þörf og tímabær og ég þakka hæstv. forsætisráðherra góða ræðu. Og ég þakka vandaða skýrslu og tillögur starfshópsins sem ég tel vera til bóta.

Víðtækt vantraust almennings í garð stjórnmála og Alþingis sérstaklega er mikið áhyggjuefni, bæði í sjálfu sér og eins vegna þeirra afleiðinga til langframa sem það kann að hafa á t.d. stjórnskipan okkar. Slíkt vantraust getur á endanum breiðst út og náð til sjálfs lýðræðisins með tilheyrandi trú á skyndilausnum sterkra leiðtoga sem bjóðast til að sjá bara um þetta allt saman fyrir okkur.

Í bók sinni Ríkið og rökvísi stjórnmála frá árinu 2013 segir heimspekingurinn Páll Skúlason að stjórnmál eigi að vera sameiginleg hagsmunabarátta okkar allra fremur en hagsmunabundin valdabarátta eins og okkur er tamt að líta á stjórnmál og iðka þau. Páll segir þar, með leyfi forseta:

„Verði alvarlegur trúnaðarbrestur á milli valdhafa ríkisvaldsins og almennings þá hættir ríkið að tryggja almannahag því ríkið er í sjálfu sér ekkert annað en þetta trúnaðarband, borið uppi af lögum og sameiginlegu siðferði.“

Hér minnir Páll okkur á að ríkið er ekki einhverjir ótilgreindir aðrir, hinir, þeir sem reyna í sífellu að klekkja á okkur, eða hafa af okkur fé, heldur er miklu eðlilegra að líta á ríkið sem nokkurs konar samlag okkar allra sem við höfum utan um sameiginleg verkefni. Starf stjórnmálamanna snýst um þetta samlag og hvernig við í samfélaginu skiptum með okkur gæðum og byrðum. Þetta er þjónustustarf. Þetta er trúnaðarstaða. Við sem hér sitjum erum hingað send sem fulltrúar tiltekinna lífsskoðana og hugsjóna. Til þess er ætlast að við störfum hér í anda þeirra.

Í 48. gr. stjórnarskrárinnar segir að vísu að alþingismenn skuli eingöngu bundnir eigin sannfæringu og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum og hafa þingmenn oft vísað til þessarar greinar þegar þeir hafa vikið frá flokkslínum en þetta er samt ekki alveg svona einfalt í mínum huga því að ég tel mig vera skuldbundinn því fólki sem sendir mig hingað inn sem fulltrúa sinn og ætlast til þess af mér að ég starfi í anda lífsviðhorfa og hugsjóna sinna og berjist fyrir þeim hagsmunum sem þetta fólk telur að ég eigi að gæta. Til dæmis með því að vekja athygli á ófremdarástandi í samgöngumálum þess svæðis sem ég er fulltrúi fyrir og er svo sannarlega ekki vanþörf á í mínu kjördæmi. En gæti þá þess jafnframt um leið að hafa alltaf í huga almannahagsmuni, enda fer slíkt iðulega saman.

Þessi vitund um almannahagsmuni sem þarf alltaf að vera vakandi með okkur samræmist vel hugmyndum Páls Skúlasonar um að stjórnmál séu í grunninn sameiginleg hagsmunabarátta okkar allra. En það flækir auðvitað málin að ólíkir hagsmunir stangast iðulega á. Sú var tíð að þingmenn voru líka fulltrúar kjósenda gagnvart stjórnsýslu og valdastofnunum, greiddu götu kjósenda sinna í bönkum og skrifuðu upp á víxla og veittu aðgang að takmörkuðum gæðum haftasamfélagsins. Kannski svolítið í anda þess fyrirkomulags sem var hér við lýði á landinu á söguöld, goðaveldisins. Alþingismaðurinn var eins og goði sem gætti hagsmuna skjólstæðinga sinna sem í staðinn sýndu honum þá hollustu og mynduðu uppistöðuna í her goðans á ófriðartímum þegar hann þurfti á að halda.

Segja má að kosningar séu nokkurs konar ígildi þess konar átaka. Smám saman hefur þetta hlutverk goðans færst frá þingmönnum kjördæmanna og yfir á aðrar hendur, kannski í sumum tilvikum kvótaeigenda sem hafa öll ráð byggðarlaga í hendi sér, nú eða stóriðjuhölda.

Virðing fyrir þingmönnum hefur dvínað að sama skapi. En hið geysilega vantraust sem ríkir í garð þingsins verður samt ekki skýrt með þessum hætti. Það á sér aðrar og dýpri rætur. Þar þurfum við öll sem hérna sitjum að líta í eigin barm. Við þurfum að skoða starfshætti okkar og venjur og ræða.

Hér segja ráðherrar ekki af sér þó að þeir séu uppvísir að því að brjóta lög. Hér virða stjórnvöld ekki niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér líta stofnanir oft á upplýsingar sem nokkurs konar herfang. Hér höfum við dæmi þess að starfsmenn og trúnaðarmenn ráðherra fari að vinna fyrir fjármálastofnanir og selji sérþekkingu sína fjármálastofnun, þ.e. þann aðgang sem þeir hafa haft að trúnaðarupplýsingum.

Alþingi er í eðli sínu átakavettvangur þar sem er tekist á um mál og þau oftast til lykta leidd. Það er ekki hlutverk okkar að vera sammála um allt og ekki einu sinni að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Við þurfum að takast á um ólík grundvallarsjónarmið en við þurfum að gera það af heilindum og málefnalega, forðast málþóf og skæting, útúrsnúninga og þvælu. Enginn á heimtingu á virðingu eða trausti í krafti stöðu sinnar eða embætta. Ekki heldur við. Maður þarf að vera traustvekjandi og traustvakandi. Maður þarf að segja satt. Lofa ekki öðru en maður ætlar sér að standa við, segja það sem maður veit og vita hvað maður er að tala um.