149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[12:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegi forseti. Málið sem við ræðum hér er mjög lýsandi fyrir þessa ríkisstjórn, stjórn sem var fyrst og fremst mynduð um það að skipta á milli sín völdum, skipta á milli sín stólum og sammælast fyrir vikið um að hver og einn flokkur svíki kosningaloforð sín. Í stað þess að gera það sem raunverulega gæti verið til þess fallið að auka trú á stjórnmálum, traust til stjórnmála, þ.e. að standa við loforðin, standa við þau fyrirheit sem kjósendum voru gefin í kosningabaráttu, er mynduð ríkisstjórn um stólaskipti og svo skipuð nefnd um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Það er náttúrlega algjörlega kostulegt, virðulegur forseti, og hálf-orwellskt í eðli sínu, auk þess sem uppleggið virðist bera það með sér að mönnum sé fyrirmunað að ímynda sér að einhver gæti viljað hefja þátttöku í stjórnmálum til þess að láta gott af sér leiða. Það er eins og gert sé ráð fyrir að menn fari fyrst og fremst út í þennan bransa til þess að fá tækifæri til að svindla og þess vegna sé hlutverk eftirlitsmannanna eingöngu að reyna að koma í veg fyrir, eins og kostur er, að stjórnmálamenn svindli út í eitt.

En hvert er hið eiginlega markmið með þessum siðareglum? Jón Ólafsson, formaður nefndarinnar sem útbjó þessar tillögur, hefur útskýrt það. Hann gerði það í skrifum strax á árinu 2009 þegar hann hvatti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem þá var ljóst að yrði til, til að samþykkja siðareglur á fyrsta degi. Hvers vegna átti að gera það? Jú, vegna þess, eins og hann útskýrði: Besta leiðin til að breyta starfsvenjum og stjórnsýslumenningunni, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur búið til á undanförnum 18 árum, er að stjórnmálin setji sér siðareglur. Siðareglur snúast sem sagt um það að koma í veg fyrir eða vinda ofan af stefnu Sjálfstæðisflokksins, þetta er svona andsjálfstæðisstefna; reglur sem kenna okkur hvernig forðast megi sjálfstæðisstefnuna og útrýma henni úr stjórnsýslunni.

Í ljósi þess að við höfum þessa skilgreiningu frá manninum, sem tveimur árum síðar var fenginn til að skrifa siðareglur ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og er nú orðinn siðapostuli þessarar ríkisstjórnar, er áhugavert að líta á nokkrar af tillögunum. Ég nefni tillögur um svokallaða símenntun starfsfólks í Stjórnarráðinu eða embættismanna almennt. Þá er t.d. að efla Stjórnarráðsskólann til að kenna mönnum hvernig forðast eigi sjálfstæðisstefnuna. Það á að útbúa námsefni fyrir opinbera starfsmenn. Það á að kenna þeim að bera kennsl á það þegar sjálfstæðisstefnan skýtur upp kollinum í stjórnkerfinu og efna til stöðugrar umræðu innan kerfisins þannig að hver og einn verði í stakk búinn til að bera kennsl á það ef brotalamir myndast og sjálfstæðisstefnan er einhvers staðar byrjuð að smjúga inn aftur.

Svo er það stofnanaumgjörðin. Þessi fræðimaður leggur til að Siðfræðistofnun verði falið það verkefni tímabundið, til að byrja með, að veita stjórnvöldum ráðgjöf um siðferðisleg álitamál og að fjárveiting til þeirrar starfsemi verði að sjálfsögðu tryggð. Það síðasta sem ég man eftir að hafa heyrt frá Siðfræðistofnun um hvað okkur stjórnmálamönnum bæri að gera var að okkur bæri skylda til að samþykkja Icesave-kröfurnar, af því að Íslendingum bæri siðferðisleg skylda til að greiða þessar kröfur, hvort sem lagaleg skylda væri til staðar eða ekki.

En jæja, nú hefur það sem sagt tekist hjá hæstv. forsætisráðherra að ná í gegnum ríkisstjórn tillögum um með hvaða hætti halda megi aftur af og helst koma í veg fyrir að sjálfstæðisstefnan nái nokkru sinni að skjóta rótum aftur á Íslandi. Framhald tillagna um stofnanaumgjörð er að Siðfræðistofnun verði falið að annast eftirfylgni með þessari skýrslu, það segir sig nú eiginlega sjálft að að sjálfsögðu verður það ekki falið einhverjum kjörnum fulltrúum. Loks er talað um að sett verði á fót nefnd eða eining innan stjórnsýslunnar með það sérhæfða hlutverk að veita einstökum starfsmönnum, þar með talið ráðherrum — ráðherrar eru náttúrlega bara starfsmenn — ráðgjöf í trúnaði um siðferðisleg álitamál. Þeir bjóðast með öðrum orðum til að útskýra lífið og tilveruna fyrir ráðherrunum, hvernig þeir eigi að haga sér, hvað sé siðlegt og hvað ekki, hvenær þeir séu komnir inn á sjálfstæðisbraut. Það er mikið afrek hjá hæstv. forsætisráðherra að koma þessu í gegnum ríkisstjórn sem situr í skjóli Sjálfstæðisflokksins.