149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[12:18]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það hefur verið að mestu ánægjulegt að fylgjast með umræðunni í dag um þessa skýrslu sem unnin er að frumkvæði forsætisráðherra um hvernig við getum náð að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslunni. Auðvitað hafa einhverjir notað tækifærið til að slá pólitískar keilur. Ég var að vonast til þess að við værum á öðrum nótum í dag, en látum það liggja á milli hluta. Ég er ekki þess umkominn að gagnrýna menn fyrir að nýta sér tækifærið til að gera slíkt.

Traust er frumskilyrði eiginlega allra mannlegra samskipta. Það á við hér eins og annars staðar í samfélaginu. Á það benti Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, í pistli sem birtist í Morgunblaðinu um siðferði í febrúar 1995. Hann benti á að traustið haldi mannheimum saman. Heimur án trausts sé heimur blekkingar sem ekki geti staðist og muni fljótt líða undir lok. Síðar í pistlinum skrifaði Gunnar, með leyfi forseta:

„Stjórnmálamenn standa og falla á því trausti sem borið er til þeirra. Kjósendur velja þá sem þeir treysta best fyrir valdinu og peningunum. Stjórnmálamenn leggja sig í framkróka við að sanna kjósendum sínum að þeir séu traustsins verðir og ef þeim tekst það ekki er þeim hafnað. Heiðarleiki er höfuðdyggð þeirra og því færri sem læðast inn í skugga spillingarinnar því sterkara verður þjóðfélagið.

Því minna traust sem ríkir milli manna, því meiri árekstrar og deilur verða: Almenningur hættir að treysta stjórnmálamönnum, sjúklingar læknum, stéttir níða skóinn hver af annarri og lögleysi eykst. Hvílíkt öngþveiti yrði og slys ef ökumenn hættu að virða umferðarreglurnar! Ekkert ríki eða kerfi stenst nema menn geti kvíðalaust treyst hver öðrum. Því meira traust sem ríkir milli manna, því haldbetra og heilbrigðara verður samfélagið. Traustið gerir það rammgert.“

Líkt og Gunnar benti á höfum við sameinast um lög og reglur og við höfum sameinast um skráðar og óskráðar siðareglur í mannlegum samskiptum. Ég hygg að þegar við lítum á það allt séu kannski óskráðu siðareglurnar mun sterkari þegar kemur að því hvernig við umgöngumst hvert annað með virðingu og byggjum upp traust í garð hvers annars.

Við viljum geta treyst því að lög séu í heiðri höfð og eina leiðin til að við getum átt í samskiptum við aðra sæmilega áhyggjulaus er sú vissa að við getum treyst þeim sem við umgöngumst. Traustið er því rauði þráðurinn í öllum samskiptum okkar og grunnurinn að heilbrigðu samfélagi, eins og Gunnar Hersveinn benti á. En traustið verður ekki áunnið með lögum eða reglum. Það verður aldrei hægt að festa í lög að almenningur skuli treysta okkur sem hér sitjum eða nokkrum öðrum, hvorki fjölmiðlamönnum, fræðimönnum né nokkrum stofnunum samfélagsins, verkalýðsforingjum eða forstjórum stórfyrirtækja. Traust er áunnið og verður aldrei lögbundið.

Með framgöngu sinni, orðum og athöfnum ávinna menn sér traust eða glata því. Sú hætta er fyrir hendi þegar reglurnar eru flóknar, löggjöfin ítarlegri, að verið sé að skapa eða búa til jarðveg fyrir tortryggni. Dæmi eru um hvernig lögin og reglurnar hafa fremur rýrt traust í samfélaginu. Við þurfum ekki annað en að líta til laga og reglna um almannatryggingakerfið þar sem saman fara flóknar reglur, ruglingslegar og ósanngjarnar tekjutengingar sem hafa leitt til óhagræðis og kostnaðar og upplifunin verði að það sé ríkjandi óréttlæti.

Okkur hefur þó tekist í þessum sal að leiðrétta það að hluta til, sérstaklega gagnvart eldri borgurum, en við eigum verk að vinna gagnvart öryrkjum. Ég hygg að dæmið um almannatryggingakerfið og hið flókna regluverk sé einmitt gott dæmi um hvernig hægt er með lögum og reglum að búa til jarðveg sem er frjór fyrir þá sem vilja byggja hér upp eða sá fræjum tortryggni og vantrausts.

Við skulum taka annað dæmi. Það eru margir Íslendingar, a.m.k. margir kjósendur sem ég tala við, sem eru fullir tortryggni gagnvart því að stjórnskipulegum fyrirvara verði aflétt af þriðja orkupakkanum sem svo er kallaður. Ég hef hins vegar orðið var við að margir í þessum sal og utan hans skilja ekki af hverju lagst er gegn því að tilskipun Evrópusambandsins um orkumál, sem við tölum um í daglegu máli sem þriðja orkupakkann, verði innleidd í íslenskan rétt. Það kann að vera að andstæðingar þess að staðfesta þriðja orkupakkann byggi ekki öll sín rök og alla sína andstöðu á lagatæknilegum atriðum heldur að töluverðu leyti á tilfinningum, tilfinningum sem gerðu það að verkum að við náðum m.a. þeim merka áfanga fyrir 100 árum að verða fullvalda ríki. Þegar við tökum til við það síðar í vetur að ræða það í þingsal hvort rétt sé og skynsamlegt m.a. að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara á þriðja orkupakkanum bið ég um að við í þingsal nálgumst líka málið þannig að við skiljum og skynjum að það eru ekki bara lagatæknileg atriði sem ráða hér för, heldur líka tilfinningar almennings, tilfinningar um að við séum að gæta hagsmuna þeirra og hagsmuna lands og þjóðar gagnvart öðrum ríkjum.

Hafi fólk það á tilfinningunni eða trúi því að við gerum það ekki minnkar traustið. Traustið í þessum efnum verður ekki byggt upp með tilvísun í lögfræðileg álit.

Þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð höfðu margir efasemdir, hristu hausinn og spáðu ríkisstjórninni ekki löngum lífdögum. Ég benti á að málamiðlun væri forsenda þess að ríkisstjórn tveggja eða fleiri flokka næði að starfa saman og skilaði árangri. Allir þurfa að gefa eftir, sætta sig við að geta ekki uppfyllt öll loforð sem gefin hafa verið. Þeir flokkar sem tekið hafa höndum saman í þessari ríkisstjórn þurftu að gera það og gerðu það og settu mark sitt á stefnuna en standa um leið vörð um grunnstef hugsjóna sinna þrátt fyrir málamiðlanir.

Sanngjarnar málamiðlanir eru forsenda þess að ólíkir stjórnmálaflokkar og pólitískir andstæðingar geti náð að taka höndum saman. Forsenda þess er að trúnaður og traust ríki á milli hinna gömlu pólitísku andstæðinga vegna þess að þannig verðum við samverkamenn og náum að uppfylla það fyrirheit að taka sameiginlega á við hið ófyrirséða, leysa verkefni og vandamál sem koma upp og allar ríkisstjórnir þurfa að glíma við.

Þegar við í lok þessa kjörtímabils horfum til baka er von mín sú að þessi ríkisstjórn, ríkisstjórn ólíkra flokka, eins ólíkra og koma hér saman á þingi, hafi með vinnu sinni náð að brúa þetta bil og vinna saman að sameiginlegum hagsmunum landsmanna, og hafi einmitt orðið til þess að gera meira til að auka traust almennings á okkur stjórnmálamönnunum en nokkrar reglur sem verða skráðar hér í bækur.