149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[12:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Í skýrslu um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu stendur, með leyfi forseta:

„… það er áberandi að traust til fjármálastofnana og löggjafans er lítið. Slíkt vantraust má rekja til fjármálahrunsins 2008 sem þegar á heildina er litið hafði neikvæð áhrif á upplifun fólks af stofnunum. Traustið sem glataðist haustið 2008 hefur ekki verið endurheimt.“

Ég get ekki annað en tekið undir þessa ályktun skýrsluhöfunda enda munum við öll hrunið, hrunið þar sem ævintýralegur blekkingaleikur ríkisstjórnarinnar um stöðu bankanna, vanhæfni og vangeta ríkisstofnana, þá sérstaklega fjármálastofnana, til að verja hagsmuni almennings gegn græðgi og svikum óprúttinna fjárglæframanna, ásamt óheiðarlegum og gríðarlegum tengslum á milli stjórnvalda og viðskiptalífsins, rústaði því mikla trausti sem Íslendingar báru til stjórnkerfisins fram að því.

Eftir hrun varð almenningur síðan vitni að hverjum svikunum á fætur öðrum, ekki bara þeim sem áttu sér stað í aðdraganda hrunsins heldur líka sviknum loforðum stjórnmálamanna gagnvart borgurunum allt fram að deginum í dag. Í þeim efnum má nefna svik á endurteknum loforðum um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Það má nefna svik á lögfestingu nýrrar stjórnarskrár sem samþykkt var með góðum meiri hluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu og það má nefna svik sem lýstu sér í því að margir þeirra sem kostuðu almenning lífeyrissparnaðinn sinn, styrk innviðanna í samfélaginu, vinnuna sína og launin höfðu flúið með gróðann í skattaskjól og skildu almenning eftir með reikninginn.

Sú flétta varð okkur öllum ljós þegar Panama-skjölin urðu opinber. Þau skjöl sem leiddu einnig í ljós að þrír ráðherrar þáverandi ríkisstjórnar áttu eignir í skattaskjóli. Hver tók ábyrgð á þeim bænum? Kannski forsætisráðherrann sem hrökklaðist úr starfi en sætti að öðru leyti engum afleiðingum þess hagsmunaárekstrar sem hann leyndi þjóðina?

Virðulegi forseti. Í skýrslu um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu kemur einnig fram að rannsóknir fræðimanna sýna að sterk tengsl eru á milli trausts og ábyrgðar. Takist stjórnvöldum ekki að gefa almenningi til kynna að starfsemi stjórnkerfisins sé í höndum hæfs fólks, jafnt kjörinna fulltrúa sem starfsfólks stjórnsýslu, getur traust ekki skapast. Í ljósi þessarar augljósu ályktunar nefndarinnar hlýt ég að spyrja hvernig þáverandi fjármálaráðherra, sem sjálfur er einn þeirra ráðherra sem geymdu eignir í skattaskjóli, geti enn þann dag í dag notið trausts sem slíkur. Er nema von að ég spyrji hvernig dómsmálaráðherra, sem leyndi þolendur kynferðisofbeldis upplýsingum um aðdraganda uppreistar æru barnaníðinga í trássi við upplýsingalög til verndar æru fjármálaráðherrans þáverandi og núverandi, geti enn þá notið trausts sem slíkur, svo ekki sé minnst á lögbrot sama ráðherra við skipan dómara í Landsrétt? Lögbrot sem ráðherrann þáverandi, og núverandi, hefur neitað að taka nokkra ábyrgð á.

Virðulegi forseti. Þessir ráðherrar, núverandi og þáverandi, eru ekki viðstaddir hér í dag til að ræða þátt sinn í eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslunni. Þau eru fjarverandi, bæði tvö. Það er kannski táknrænt, virðulegi forseti, því að í mínum huga væri varanleg fjarvera þeirra frá ráðherrabekknum næstu misserin mikilvægt skref í þá átt að efla traust á stjórnmálum á Íslandi í dag.