149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[12:33]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þá vinnu sem hefur átt sér stað með þessari skýrslu sem er komin út og ekki síst þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað sem mér finnst helst hafa dregið það fram hversu flókið orsakasamhengi er á bak við það að ávinna sér traust.

Það er vandasamt að ávinna sér traust, það er vandasamt verk og getur tekið langan tíma, alveg eins og það virðist glatast mjög hratt ef ekki er vel staðið að málum. Það upplifðum við mjög sterkt, eins og kemur fram í skýrslunni, við fall fjármálakerfisins þegar allt hrundi, þar á meðal traust á okkar helstu stofnunum, á stjórnmálunum, á stjórnsýslunni og á okkur, hv. alþingismönnum, og því starfi sem við vinnum hér við að taka mikilvægar ákvarðanir.

Þetta er alvarlegt mál og við höfum ítrekað spurt okkur þennan áratug hvernig við getum endurunnið glatað traust. Þess vegna fagna ég þeirri vinnu sem hefur átt sér stað. Þetta var eitt af fyrstu verkum hæstv. forsætisráðherra. Lykilorðið hefur komið mjög skýrt fram í umræðunni, gagnsæi í öllum okkar störfum, og ég get tekið undir það. Það er mikið rætt um orsakasamhengið við ábyrgð og ég get tekið undir það. Mér finnst minna hafa verið rætt um það sem ég segi að sé kjarninn í niðurstöðu þessarar skýrslu sem er tillaga um að ríkisstjórn myndi stefnu um heilindaramma.

Mér komu í hug tveir ágætisleiðtogar á okkar tímum. Annar var um tíma forstjóri General Electric, Jack Welch. Hann sagði í bók sem hann gaf út að lykilorðið í þeim árangri sem það fyrirtæki náði á þeim tíma væri heilindi, alltumlykjandi í menningu, starfsháttum og samskiptum aðila á milli. Nú er starfsmannafjöldi þess fyrirtækis álíka og fjöldi íbúa á Íslandi. Annar merkur leiðtogi úr íþróttum, Alex Ferguson, segir í einni þeirra bóka sem fjalla um hans merka árangur að lykilatriðið í þeim árangri sé heilindi hans við alla sem koma að því félagi sem um ræðir.

Mér finnst þetta lítið hafa komið fram í umræðunni en þetta er kjarninn í tillögunum, að okkur takist að marka stefnu um það hvernig heilindin speglast í öllu okkar starfi. Ég held að það sé fyrsta og stærsta verkefni þingsins, að skapa þennan heilindaramma, hvort sem það eru skráðar reglur, lagabreytingar í upplýsingalögum eða öðrum lögum, að við látum þetta koma fram í öllu því sem við gerum, í öllum þeim háttum og allri þeirri menningu sem mun lita stjórnmálin og stjórnsýsluna til framtíðar.

Hv. þm. Jón Þór Ólafsson sagði reyndar hér áðan: „Mér sýnist enn þá að forsætisráðherra sé að vinna þetta af heilindum.“

Ég hef jafnframt þessa trú og enn frekar að við náum í framhaldi þeim árangri sem til þarf í þeirri stöðugu viðleitni sem er sannarlega til staðar — og viljann hefur ekki skort — til að efla traust í samfélaginu, á stjórnmálum og stjórnsýslu.