149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[12:46]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka þá umræðu sem er hér um þetta mikilvæga mál sem snýr að trausti í stjórnmálum. Ég held að það sé ágætt að hafa í huga, eins og hefur svo sem margoft komið fram í umræðunni, að traust er áunnið, m.a. með því að sýna ábyrgð. Traust og ábyrgð fara alltaf saman. Við getum sett okkur allar þær reglur sem við viljum, þrengt umgjörð og hert hana á hvern þann hátt sem við viljum, en ef við vinnum ekki eftir þeim reglum sem við setjum okkur og vinnum ekki í takt við anda þeirra reglna sem við setjum okkur eru þær til lítils.

Ég er ánægður með margt af því sem hefur verið gert hér eftir hrun í því að auka gagnsæi í stjórnmálum með því að skerpa á hagsmunaskráningu, siðareglum og öðrum þeim reglum sem við viljum starfa eftir sem stjórnmálamenn, hvort heldur sem litið er til ráðherra eða þingmanna, en þær eru til harla lítils ef við störfum ekki eftir þeim, ef við sýnum ekki í verki að við virðum þessar reglur og vöndum vinnubrögð okkar.

Það er kannski tvennt sem er mér öðru fremur ofarlega í huga í þessu. Þetta eru ekki aðeins þær reglur sem við störfum eftir heldur líka viðmót okkar, hvernig við nálgumst viðfangsefnið og hvernig við nálgumst hvert annað. Fólk getur tekist hart á, verið ósammála um margt, en nálgumst við viðfangsefnið af virðingu? Berum við virðingu fyrir andstæðum skoðunum? Hreykjum við okkur af því að hæfni okkar sem stjórnmálamanna sé að draga upp þá mynd að hvítt sé svart eða svart sé hvítt frekar en einfaldlega að ræða málin af heiðarleika og opinskátt og bera virðingu fyrir því að fólk kunni að vera ósammála okkur og að við kunnum jafnvel að hafa rangt fyrir okkur, getum jafnvel skipt um skoðun eða viðurkennt þegar okkur verða á mistök? Ég held að þetta sé allt of óalgengt. Það þykir einhverra hluta vegna veikleiki í stjórnmálum að viðurkenna mistök, að leiðrétta þau og koma einfaldlega fram af heiðarleika. Það er heiðarleikinn í samskiptunum sem elur á endanum af sér traust. Það að axla ábyrgðina þegar okkur verður á elur af sér traust, ekki það að nokkur ætlist til þess að við séum beinlínis ómannleg, að okkur verði aldrei á eða gerum aldrei neitt rangt.

Ég held að það yrði til þess að efla traust á þinginu verulega ef við nálguðumst viðfangsefni okkar og ábyrgð af meiri auðmýkt og gættum að heiðarleika í samskiptum okkar á milli.

Margar af þeim reglum sem við höfum sett okkur, t.d. þegar horft er til upplýsingalaga Stjórnarráðsins, eru mjög góðar og umgjörðin sömuleiðis. En vinnum við raunverulega eftir þeim reglum? Af hverju förum við alltaf undan í flæmingi þegar fyrirspurnir á grundvelli upplýsingalaga berast? Af hverju er fyrsta svar Stjórnarráðsins einhvern veginn sjálfkrafa nei, jafnvel þó að vitað sé að skyldan til að veita upplýsingar sé fyrir hendi? Ráðuneytin vita mætavel hvað þau mega birta og hvað þau mega ekki birta og eiga að gera það undanbragðalaust. Það elur af sér traust. Fólk þarf alltaf að leita til úrskurðarnefndar upplýsingamála til að fá upplýsingar, jafnvel um hin smávægilegustu málefni, af því að svarið virðist vera sjálfkrafa nei. Það er ágætt að hafa í huga það mál sem varð ríkisstjórninni að aldurtila fyrir rétt rúmu ári (Forseti hringir.) þegar eltast þurfti við upplýsingar út úr ráðuneytunum vikum og mánuðum saman.

Ég held að kjarni máls sé að við þurfum að nálgast ábyrgð okkar af meiri auðmýkt og við þurfum að vinna eftir þeim reglum sem við höfum sett okkur.