149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[13:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Skýrslan sem við ræðum hér er fín sem slík. Það er að mínu mati lágmarksviðleitni að vilja innleiða þær hugmyndir sem í henni er að finna. Hún er þó í grunninn ekki pólitískt plagg og fer ekki út í þau pólitísku álitaefni sem ákvarða traust gagnvart stjórnvöldum eins og t.d. þau efni sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir nefndi áðan.

Ég ætla að nefna enn annað en það er þó dæmi um efni sem ég myndi vilja halda mjög margar ræður um.

Við erum oft til í markmiðin en ekki til í að gera það sem þarf að gera til að ná þeim. Vandinn er ekki skortur á tillögum til að auka traust til stjórnmálanna heldur sá að of margir stjórnmálamenn leggjast gegn þeim og hafa gert í áraraðir. Ég fékk mikinn innblástur af ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar hér áðan. Þó að það sé kannski spaugilegt er það sagt í fullri alvöru. Hann spurði hvort allt þetta gegnsæi gæti hreinlega aukið tortryggnina. Og eins og margar spurningar hv. þingmanns fékk þessi mig til að hugsa.

Fyrst þetta þó: Ef gegnsæi veldur tortryggni er það vegna þess að hlutir sjást sem ekki sáust áður. Þá er lausnin ekki að fela þá aftur heldur að færa þá til betri vegar. Frekari varnir tel ég ekki þurfa fyrir gegnsæi, en sú spurning hvort gegnsæi geti aukið tortryggni er miklu frekar áhugaverð vegna þess að sennilega er svarið já af fyrrgreindum ástæðum. Það sem áður var hulið dýrðarljóma skjaldarmerkisins er skyndilega sýnt eins og það er raunverulega.

Ríkisstjórnir hafa alltaf baðað sig í ákveðnum dýrðarljóma og þegar almenningur sér að það er tálsýn minnkar traustið auðvitað — og hér er punkturinn: Réttilega. Reyndin er sú að það eru mistök að treysta stjórnvöldum almennt, nú sem fyrr, og svo mun ávallt verða. Stjórnvöld eru í eðli sínu sjálfmiðaðar valdastofnanir sem vinna einungis tilneyddar að hag borgaranna. Það er svolítið skrýtið að segja Sjálfstæðismönnum þetta en mér hefur oft fundist vera fólgin ákveðin mótsögn í því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn málar sig upp í baráttunni gegn klóm ríkisvaldsins á sama tíma og hann sýnir mestan mótþróann við aðhaldi og mótvægi gegn því sama ríkisvaldi. Ég held ég viti hvers vegna. Það er vegna þess að hann þekkir stofnanir ríkisins út og inn og hefur haft boðvald yfir þeim svo stóran hluta nútímasögunnar að honum þykir beinlínis skrýtið að vera ekki í ríkisstjórn.

Ég nefni Sjálfstæðisflokkinn ekki vegna þess að ég sé ósammála stefnu hans eða að mér sé á einhvern hátt illa við hann, heldur vegna þess að hann hefur verið áberandi valdamestur allra flokka á Íslandi áratugum saman, meira eða minna. Hann hefur verið ríkjandi afl. Og öfl sem ráða ríkjum í langan tíma verða heimakær valdinu og eiga því auðvelt með að treysta því að vel sé farið með það. Mér finnst það alveg skiljanlegt. Mér finnst það glatað, en algjörlega skiljanlegt. Það væri skrýtið ef svo væri ekki.

Hvað ef kjósendur þurfa bara það sama og ríkjandi öfl þurfa til að treysta, að fá að ráða hlutunum sjálfir án þess að þurfa að treysta heilindum fólks sem haldið er þeim stórfurðulega og reyndar pínusjúklega metnaði að komast til valda? Ef kjósendur væru sjálfir heimakærir valdinu myndu þeir kannski treysta því betur að vel væri farið með það. Ég er ekki að tala um þjóðaratkvæðagreiðslur um hvert einasta mál en samt stundum um einhver mál, af og til, oftar en aldrei. Það þarf ekkert endilega nýjar hugmyndir því að ansi margar hafa legið fyrir árum saman um gegnsæi og upplýsingarétt almennings, takmörk á setutíma ráðherra, raunverulegan aðskilnað ríkisvalds, hagsmunaskráningu, fyrirkomulag styrkja til frambjóðenda, rannsóknarnefndir, ráðherraábyrgð, sjálfstæðar ríkisstofnanir og þingmál og þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði kjósenda.

Þessi skýrsla er ágæt og góð til síns brúks. Sömuleiðis er ýmislegt hárrétt sem fólk hefur sagt í dag um framkomu, stjórnmálamenningu og rökræðustílinn. Margt hefur verið sagt hér í dag sem ég myndi taka undir og vilja endurtaka sjálfur. En ef þingheimur vill meira traust án þess að reyna að koma sér út úr íslenskri stjórnmálamenningu þarf ekki að leita lengra en á vef Alþingis til að finna fullt af vel þekktum og vel unnum hugmyndum, nánar tiltekið í tillögum að nýrri stjórnarskrá grundvallaðri á tillögum stjórnlagaráðs. Henni verður ekki gleymt.