149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[13:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu. Án þess að á nokkurn sé hallað í henni fannst mér sjálfri áhugaverðast að hlusta á þá tvo varaþingmenn sem tóku til máls hér, hv. þm. Hjálmar Boga Hafliðason og hv. þm. Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur, því að þau höfðu aðeins aðra sýn á það verkefni sem við stöndum frammi fyrir en við sem erum hér á hverjum degi. Mér fannst það áhugavert sem hv. þm. Heiða Guðný Ásgeirsdóttir sagði, að tilfinning fólks væri oft sú að forgangsraðað væri í þágu allra annarra en þess. Sem segir auðvitað stóra sögu. Og mér fannst einnig áhugavert sem hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason sagði: Það er svo hollt fyrir alla að upplifa að vera í meiri hluta og minni hluta. Því er ég hjartanlega sammála því að það eru ólík hlutverk en bæði kalla á mikla ábyrgð.

Ástæða þess að mér fannst mikilvægt að ráðast í þessa skýrslugerð er að við horfum á alþjóðlegan mælikvarða, vísitölu félagslegra framfara, mælikvarða um mannlega þróun sem settur var upp af Matthíasi Sen og fleirum. „Social Progress Index“ heitir mælikvarðinn á ensku. Hann sýnir góða stöðu íslensks samfélags. Við erum ef ég man rétt samkvæmt nýjustu tölum númer tvö í vísitölu félagslegra framfara.

Við erum sömuleiðis að hækka á listanum um mannlega þróun. En samt sýna alþjóðlegir mælikvarðar vantraust á stjórnmálum, þrátt fyrir þann árangur sem við sýnum sem samfélag, sem vafalaust er stjórnmálunum líka að þakka. Okkur sem og öðrum.

Það hlýtur að vekja okkur til umhugsunar og það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, að hv. þingmenn fóru ekki mikið í einstakar tillögur. Ég hefði alveg þegið meiri leiðbeiningu um þær. En ég get fullvissað hv. þingmenn um að ég mun vinna áfram að þessum tillögum, þ.e. þeim sem undir mig heyra. Það er síðan hv. þingmanna að taka boltann hvað þær varðar sem heyra undir Alþingi og ræða á réttum vettvangi forsætisnefndar Alþingis og þingflokksformanna ef hv. þingmenn hafa áhuga á að nýta þessar tillögur í að endurskoða þann ramma sem við störfum innan.

Hér var rætt um að við hefðum ekki þörf fyrir flóknar reglur, fyrir viðurlög. Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á því að ekki eru lögð til nein viðurlög í þessari skýrslu. Bara alls ekki. Hins vegar er lagt til að fagaðili sé til ráðgjafar. Ég veit ekki hvort hv. þingmenn hér upplifi ekki stundum efasemdir og hafi þörf fyrir að leita ráðgjafar þegar upp koma flókin siðferðisleg álitamál sem kalla á að maður þurfi að fá lánaða dómgreind, eins og stundum er sagt á mínu heimili. Ég geri það nefnilega. Ég öfunda þá hv. þingmenn sem aldrei upplifa þennan efa um að þeir séu að taka rétta ákvörðun. Eða nei, reyndar, ég öfunda þá ekki. Því að ég myndi ekki vilja lifa lífinu þannig að ég efaðist aldrei (Forseti hringir.) um þá valkosti sem eru fyrir framan mig, ekki síst þegar embætti okkar sem hér erum eru jafn flókin og mikilvæg fyrir samfélagið og raun ber vitni.

Þannig að ég held að það sé jákvætt að hv. þingmenn hafi aðila til að leita ráðgjafar hjá. Og ég sá eftir því þegar ráðgjafanefnd, samhæfingarnefnd um siðferðisleg viðmið, var aflögð hér 2013 af hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem þá gegndi mínu embætti. Hann kom hér upp og gerði lítið úr því að hér væru stofnanir sem ættu að hafa einhverju hlutverki að gegna. Þær hafa ekki því hlutverki að gegna að setja okkur fyrir eða segja okkur fyrir verkum heldur einmitt vera okkur til ráðgjafar. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég veit að hér gilda tímamörk en hér var löng umræða og mikilvægt að bregðast við því sem sagt var. Ég ætla að segja hér að lokum að mér fannst mikilvæg athugasemd frá hv. þm. Óla Birni Kárasyni sem sagði: Draga málamiðlanir úr trausti? Ætlast kjósendur til þess að ekki séu gerðar málamiðlanir? (Forseti hringir.) Þá ályktun gæti ég nefnilega dregið af máli ýmissa annarra hv. þingmanna. Það er umfjöllunarefni fyrir okkur þingmenn ef við teljum okkur ekki geta gert málamiðlanir án þess að dregið sé úr trausti. Ég er sammála hv. þingmanni, sanngjarnar málamiðlanir eru ein af undirstöðunum fyrir traust á stjórnmálum.

Fyrirgefðu, herra forseti.

(Forseti (JÞÓ): Forseti gætir jafnræðis þegar kemur að ræðutíma og byrjar að bjalla, létthentur þó en stöðugt, eftir 15 sekúndur umfram ræðutíma.)