149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

þinglýsingalög o.fl.

68. mál
[13:38]
Horfa

Njörður Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það eru nú greinilega ekki margir sem hafa mikinn áhuga á þessu frumvarpi. Ég hef þó áhuga á rafrænum þinglýsingum og mig langar til að nefna hér eitt atriði. En fyrst vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á frumvarpinu. Ég held að það sé eðlilegt að koma á rafrænni þinglýsingu. Í því samhengi má benda á að árið 2003 var rafræn stjórnsýsla heimiluð, þannig að núna 15 árum síðar erum við að stíga þetta eðlilega skref.

Það atriði sem mig langar að minnast á er aðgengi að þessum gögnum til lengri tíma. Í því samhengi langar mig að benda á að elsta þinglýsta skjalið á Íslandi sem enn er til er frá síðari hluta 12. aldar. Það skjal lýsir réttindum og eignum Reykholtskirkju í Borgarfirði og getur enn þann dag í dag haft þýðingu.

Í því samhengi má líka nefna þjóðlendumálin, óbyggðanefnd, þar sem skjöl frá fyrri öldum hafa mikla þýðingu í verkefnum nefndarinnar. Allt aftur til 17. aldar og til 20. aldar. Það er mikilvægt að tryggja langtíma varðveislu þessara gagna og aðgengi að þeim samkvæmt þeim reglum sem um þær gilda. Það getur verið kostnaðarsamt að afhenda rafræn gögn til Þjóðskjalasafns Íslands samkvæmt þeim reglum sem þar gilda, alla vega fyrst um sinn.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi hugað að þessum mikilvæga þætti. Og ef svo er, hvort hann hafi þá tryggt fé til þess að hægt sé að standa að þeirri afhendingu.