149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

þinglýsingalög o.fl.

68. mál
[13:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fyrir að sýna þann áhuga á þinglýsingum, rafrænum og öðrum, sem mér heyrist hv. þingmaður líka hafa áhuga á. Ég nefndi einmitt í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra að þetta mál þætti ekki mjög pólitískt sexí — ef ég má sletta, virðulegur forseti — í umræðunni. En þetta er þó að mínu mati eitt mesta framfaramálið sem okkur gefst tækifæri til að ræða á þinginu, að minnsta kosti þennan veturinn, og er gríðarlega mikilvægt að vel takist til.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, þinglýsingar eru í eðli sínu löggjörningur. Við stólum á réttaráhrif þinglýsinga jafnvel í mörg hundruð ár fram og aftur í tímann. Þess vegna skiptir miklu máli að þessi gögn séu vel varðveitt. Hugað hefur verið að þessu flókna, tæknilega úrlausnarefni við undirbúning á þessu frumvarpi. Þetta mál er náttúrlega orðið gamalt í stjórnsýslunni, menn hafa verið að skoða tæknilausnir í hátt í tíu ár. Mér telst til að þetta mál sem slíkt eigi tíu ára afmæli um þessar mundir en það hefur verið að velkjast um í kerfinu, því miður, kannski einmitt af áhugaleysi stjórnmálanna á þessu mikla framfaramáli.

En þetta hefur sérstaklega verið skoðað. Yfir verkefninu verður verkefnisstjóri af hálfu dómsmálaráðuneytisins og þjóðskrár. Hópur manna kemur með tæknilega sýn á þessi mál og veit að það þarf að vera hægt að reiða sig á þessi rafrænu gögn sem send eru langt fram í tímann.

Ég vil hins vegar líka nefna að það hefur ekki endilega verið áreiðanlegt að hafa gögnin á pappír eins og verið hefur vegna þess að mikill misbrestur er á varðveislu pappírsgagnanna. Það er ekki síður kostnaðarsamt að varðveita skjölin (Forseti hringir.) á pappír.