149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

þinglýsingalög o.fl.

68. mál
[13:43]
Horfa

Njörður Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Það er skoðun mín að þau gögn sem verða til á rafrænu formi eigi að varðveitast til lengri tíma á rafrænu formi. Ef við förum að prenta út gögn, eins og t.d. rafrænar þinglýsingar, töpum við miklu af upplýsingunum sem eru í hinum rafrænu gögnum.

Þjóðskjalasafn Íslands hefur gert eftirlitskannanir á skjalavörslu og skjalastjórn afhendingarskyldra aðila. Þar hefur komið fram að opinbera aðila, stofnanir og embætti skortir fé til að afhenda gögnin á rafrænu formi til safnsins. Þess vegna nefni ég þetta hér, að fyrst við erum að stíga þetta eðlilega skref verði hugað að því líka.

Í upphafi skyldi endinn skoða. Í raun og veru er endirinn þá hjá Þjóðskjalasafni þar sem gögnin fara til varðveislu. En þau hafa samt sem áður, eins og fram kom áðan, áfram mikið gildi þó að þau séu orðin gömul og komin til varðveislu á safninu.