149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.

69. mál
[13:47]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Frumvarp þetta er lagt fram sérstaklega í því skyni að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands á því réttarsviði sem frumvarpið nær yfir.

Nánar tiltekið er markmið frumvarpsins tvíþætt, annars vegar er lagt til að sett verði nauðsynleg lagaákvæði til að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt sáttmálanum um ráðstafanir og refsingar fyrir hópmorð frá árinu 1948, fjórum Genfarsamningum frá árinu 1949 og tveimur viðbótarbókunum við þá samninga frá árinu 1977. Um er að ræða Genfarsamning um bætta meðferð særðra og sjúkra hermanna á vígvelli, Genfarsamning um meðferð særðra, sjúkra og skipreika sjóliða á hafi, Genfarsamning um meðferð stríðsfanga og Genfarsamning um vernd almennra borgara á stríðstímum.

Í framangreindum samningi um ráðstafanir og refsingar fyrir hópmorð, sem var fullgiltur af Íslands hálfu árið 1949, er sett fram skilgreining á hópmorði og mælt fyrir um refsingu fyrir brotið sem og fyrir hlutdeild, tilraun og hvatningu til þess. Er framkvæmd samningsins á ábyrgð aðildarríkja og skuldbinda þau sig til að aðlaga landslög sín til að takmarki hans verði náð.

Ísland fullgilti Genfarsamningana árið 1965 og viðbótarbókanirnar við þá árið 1987. Þeir samningar fjalla um vernd og meðferð þeirra sem ekki taka þátt í átökum, þ.e. almennra borgara, sem og þeirra sem lagt hafa niður vopn. Samanlagt innihalda samningarnir ásamt viðbótarbókunum um 600 ákvæði þar sem m.a. er fjallað um manndráp af ásetningi, pyndingar eða ómannúðlega meðferð, veruleg eignaspjöll og eignaupptöku sem ekki verður réttlætt af hernaðarnauðsyn.

Framangreindir samningar leggja ríkar skyldur á aðildarríki þeirra til að rannsaka og saksækja vegna þeirra glæpa sem undir þá falla í landsrétti. Við fullgildingu þeirra voru aftur á móti engin ákvæði tekin upp í íslenska löggjöf er tóku sérstaklega til þessara brota. Almenn hegningarlög hafa til að mynda ekki að geyma ákvæði um hópmorð eða stríðsglæpi. Var afstaða íslenskra stjórnvalda lengst af sú að ákvæði almennra hegningarlaga tækju nægjanlega til þessara glæpa og að þeir teldust ekki sérglæpir að íslenskum rétti. Þannig var talið að flestir glæpirnir uppfylltu refsinæmisskilyrði ákvæða almennra hegningarlaga, t.d. um manndráp, líkamsmeiðingar og kynferðisbrot. Þá eru heldur engin ákvæði í íslenskri löggjöf er veita alþjóðlega refsilögsögu vegna stríðsglæpa líkt og áskilið er í Genfarsamningunum.

Hins vegar er markmið þessa frumvarps það að setja nauðsynleg lagaákvæði til að tryggja að íslensk stjórnvöld geti nýtt sér fyllingarlögsögu Alþjóðlega sakamáladómstólsins og þannig rannsakað sjálf og ákært fyrir glæpi sem falla undir lögsögu dómstólsins samkvæmt Rómarsamþykkt um dómstólinn frá árinu 1998 sem fullgilt var af Íslands hálfu árið 2000.

Á grundvelli Rómarsamþykktarinnar var settur á fót varanlegur alþjóðlegur sakamáladómstóll sem hefur lögsögu yfir þeim glæpum sem taldir eru varða gjörvallt samfélag þjóða, nánar til tekið hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Á þingi aðildarríkja Rómarsamþykktarinnar í Kampala árið 2010 voru samþykktar tvenns konar breytingar á samþykktinni. Annars vegar var um að ræða að skilgreining á þeim stríðsglæpum sem falla undir lögsögu dómstólsins var útvíkkuð, þ.e. notkun tiltekinna vopna í vopnuðum átökum sem eru ekki alþjóðleg eðlis. Hins vegar samþykktu aðildarríkin skilgreiningu á glæpum gegn friði og hvernig lögsögu dómstólsins yfir þeim glæpum skyldi háttað.

Við fullgildingu Íslands á Rómarsamþykktinni voru samþykkt á Alþingi lög nr. 43/2001, um framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn. Með þeim lögum voru lögfest nauðsynleg ákvæði til að dómstólum og stjórnvöldum hér á landi yrði unnt að framkvæma ákvæði Rómarsamþykktarinnar í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins. Lögin takmarkast þó við aðstoð við dómstólinn og fullnustu dóma hans hér á landi.

Rómarsamþykktin skuldbindur ekki aðildarríki til að rannsaka og ákæra vegna þeirra verknaða sem heyra undir lögsögu Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Rómarsamþykktin gerir þó ráð fyrir slíkri lögsögu aðildarríkja. Þannig er lögsaga dómstólsins fyllingarlögsaga eins og það er kallað, þ.e. dómstóllinn getur einungis saksótt ef ríki með lögsögu skortir vilja eða getu til þess. Til þess að Íslands geti nýtt sér fyllingarlögsögu Alþjóðlega sakamáladómstólsins er nauðsynlegt að innleiða í íslensk lög þær verknaðarlýsingar sem er að finna í Rómarsamþykktinni, en margir þeirra glæpa falla ekki að neinum verknaðarlýsingum hinna íslensku, almennu hegningarlaga. Má þar nefna stríðsglæpi er varða meðferð borgara á hernumdum svæðum.

Með það að markmiði að uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands og tryggja að Ísland geti notið fyllingarlögsögu Alþjóðlega sakamáladómstólsins inniheldur frumvarpið ákvæði um verknaðarlýsingar, refsingar, lögsögu, fyrningu og gildistöku. Nánar tiltekið er í 1. gr. fjallað um hópmorð, í 2. gr. um glæpi gegn mannúð, í 3. gr. um stríðsglæpi í alþjóðlegum vopnuðum átökum, í 4. gr. um stríðsglæpi í vopnuðum átökum sem eru ekki alþjóðlegs eðlis, í 5. gr. um glæpi gegn friði og í 6. gr. um ábyrgð herforingja og annarra yfirmanna. Lagt er til að hámarksrefsing fyrir brot gegn öllum þessum ákvæðum verði ævilangt fangelsi.

Hvað varðar verknaðarlýsingar er farin sú leið í frumvarpinu að innleiða að meginstefnu til verknaðarlýsingar Rómarsamþykktarinnar. Veigamikil rök mæla með því. Fyrst ber að geta þess að sú leið tryggir að Ísland geti nýtt sér fyllingarlögsögu Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Þá ber að líta til þess að ákvæði Rómarsamþykktarinnar byggjast á hópmorðssáttmálanum og Genfarsamningunum frá 1949 og viðaukum þeirra, sem ég hef áður nefnt, frá árinu 1977. Að auki var ákvæðum samþykktarinnar ætlað að endurspegla núgildandi venjurétt á þessu sviði.

Þá mæla skýrleikasjónarmið einnig með þessari aðferð. Með innleiðingu verknaðarlýsinga Rómarsamþykktarinnar eru alþjóðlegum glæpum gerð skýr skil í íslenskum rétti og refsinæmi þeirra ótvírætt gagnvart einstaklingum. Er það mikilvægt í ljósi sérstöðu glæpanna þar sem íslenskir ríkisborgarar bera nú þegar refsiábyrgð samkvæmt þjóðarétti vegna þeirra, bæði fyrir alþjóðasakadómstólum og landsrétti ríkja heimsins.

Virðulegur forseti. Ísland hefur þá skýru stefnu að berjast skuli gegn refsileysi þeirra sem bera ábyrgð vegna alþjóðlegra glæpa, bæði fyrir alþjóðasakadómstólum og í landsrétti. Ísland var í fylkingu þeirra landa sem stóðu að stofnun Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Innleiðing þeirra samninga sem frumvarp þetta varðar í landsrétt er því í samræmi við stefnu Íslands og þeirra ríkja sem sýna í verki þann hug sinn að vinna gegn refsileysi glæpa sem varða gjörvallt samfélag þjóðanna og tryggja að raunverulega sé sótt til saka vegna þeirra. Er slík innleiðing einnig í samræmi við væntingar þeirra ríkja sem stóðu að stofnun Alþjóðlega sakamáladómstólsins og ákall dómstólsins sjálfs sem og annarra alþjóðastofnana og Sameinuðu þjóðanna.

Ég legg til að þessu frumvarpi verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.