149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

dómstólar o.fl.

70. mál
[14:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, frumvarpið hefur tekið þeim breytingum, að minnsta kosti frá því að það var lagt fram síðast, að hafa breiðari skírskotun með því að fjölga þeim sem koma utan dómstólanna. Það verður hins vegar að hafa í huga að dómstóll þessi er ekki dómstóll í þeim skilningi að menn séu þar í fullu starfi sem dómarar. Ein breytingin sem kemur núna fram, og ég tel í raun og veru hafa átt að vera í upphaflega frumvarpinu, er að þeir sem koma að utan og sitja þarna og eru skipaðir, en eru ekki þegar embættisdómarar, þurfi að lúta sama mati og aðrir dómarar, t.d. hæfnismati og skoðun og umsagnarferli. Því að það er nú eitt af því sem gagnrýnt hefur verið einna helst að menn séu valdir til setu í dómnum, ef ég má orða það svo óvirðulega; kannski af götunni, þó að það sé auðvitað ekki þannig. En að menn hafi að minnsta kosti einhvern þann bakgrunn sem rennt getur stoðum undir traust á dómsstörfunum almennt.

Því er lýst ágætlega í greinargerðinni að það kann að vera að upp komi þannig atvik að endurupptökudómur í tilteknu máli verði skipaður að meiri hluta þessum tveimur sem ekki eru sitjandi embættisdómarar. Sá möguleiki er fyrir hendi. Hins vegar er gert ráð fyrir ákveðnu ferli og að embættisdómarar víki við tilteknar aðstæður sem þá geta leitt til þessa.

Ég er ekki sannfærð um það og ekki tilbúin til að taka undir að traust á þessum dómstól, sem ég ítreka aftur að er ekki eiginlegur dómstóll í þeim skilningi að hann fer ekki með efnislega meðferð máls, verði meira ef þar sitja einhverjir sem ekki eru nú þegar sitjandi embættisdómarar. Þvert á móti tel ég að það skipti miklu máli að þar séu sitjandi embættisdómarar, þó ekki þeir sem setið hafa í þeim dómstól sem kveðið hefur upp dóminn eða með dómurum, sem samdómarar þeirra.