149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

dómstólar o.fl.

70. mál
[14:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég velti þá fyrir mér í ljósi svara hæstv. ráðherra hvernig þeim málum sem fara alla leið til Hæstaréttar yrði fyrir komið, þeim sem farið hafa í gegnum þrjú dómstig. Þá mætti ætla að hver einasti dómstóll hefði átt þátt í því máli sem um ræðir.

Þegar svo er komið veltir maður fyrir sér hvort það sé endilega til þess fallið að vekja traust að meiri hluti þeirra sem taka ákvörðun um endurupptöku séu dómarar sem áttu þátt í ferlinu upphaflega. Þeir koma alla vega frá þeim dómstólum sem áttu þátt í því upphaflega.

Ég velti fyrir mér, alla vega gagnvart hæstaréttardómum sem verið er að fara fram á að taka upp aftur, hvort ekki ætti að setja einhvers konar skilyrði um að þeir tveir sem koma að málum og eru utan dómstólanna sitji þar að minnsta kosti í meiri hluta.