149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

dómstólar o.fl.

70. mál
[14:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem hv. þingmaður er að velta fyrir sér er í rauninni hvort dómur æðsta dómstólsins eða jafnvel æðra dómstigs, Landsréttar, eigi líka hafa áhrif á aðkomu lægra setts dómara eða við það dómstig sem er lægra sett.

Menn krefjast bara endurupptöku á einum tilteknum dómi. Þá er ekki litið til þeirrar meðferðar sem dómurinn hefur fengið á lægri stigum. Ef menn óska t.d. eftir endurupptöku á Hæstaréttardómi í framtíðinni, ef við gefum okkur að það mál hafi farið í gegnum öll þrjú dómstigin, er það bara dómur Hæstaréttar sem er til skoðunar. Þar af leiðandi dómari sem kemur úr þeirra röðum sem tekur ekki sæti í meðferð þess máls. Það kunna auðvitað að vera einhver sérstök skilyrði þá uppi um að landsréttardómarinn verði mögulega ekki heldur talinn hæfur eða að hann myndi víkja sæti. Þá er það nú sjálfleyst. Þá sitja þarna að meiri hluta tveir dómarar.

En ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að skoða þetta sérstaklega. Ég er ekki þeirrar skoðunar að rétt sé að líta á alla dómara eða öll dómstigin sem vanhæf til að fjalla um hvort málið eigi möguleika á endurupptöku. Það má heldur ekki gleyma því að það eru ákveðnir mælikvarðar sem liggja fyrir sem eru bara hlutlægir, ekki huglægir heldur hlutlægir, sem skipta mestu máli í þessu.

Svo finnst mér ekki eðlilegt að tala til dómarastéttarinnar eða dómstólanna með þeim hætti sem mér finnst hv. þingmaður gera, að ýjað sé að því að aðkoma dómaranna sjálfra skapi einhvers konar vantraust í málefnum dómstólanna. Ég held að við séum komin út á hættulegar brautir ef við treystum ekki dómstólunum til þess að kveða upp dóma, sem við svo sannarlega gerum, og þá mögulega líka (Forseti hringir.) til að endurmeta niðurstöðuna ef út í það fer.