149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[14:30]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir ágæta ræðu. Það er alveg ljóst að við hv. þingmaður deilum ekki skoðunum í einu og öllu, en það er kosturinn við það talsamband sem er á milli okkar hv. þingmanns að við getum talað hvor við annan af einlægni og skipst á skoðunum án þess að vera sammála, án þess að það sé í sjálfu sér eitthvert vandamál okkar á milli.

Ég tel að hv. þingmaður hafi brennandi áhuga á því að heilbrigðiskerfið á Íslandi gangi vel og ég er ekki í nokkrum vafa um það. Kannski sér hann leiðirnar aðeins öðruvísi en ég. Í fyrra andsvari mínu vil ég vekja aðeins máls á og ræða það við þingmanninn að nú þegar eru í gildi samningar án hagnaðar við — ég held að ég fari rétt með — einar fimm heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit ekki betur en að þar sé veitt góð þjónusta, að þar séu starfsmenn ánægðir og stjórnendur ánægður með að hafa þá stjórn á hlutunum sem þeir geta haft í krafti þess að vera með sinn einkarekstur, en eru engu að síður á samningi við ríkið sem gerir ráð fyrir að þeir taki ekki hagnað út úr sínum fyrirtækjum, þ.e. þau séu „non-profit“.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann haldi að þetta sé bara tilviljun, að allir hinir sem sóttu um að fá að reka þessar stöðvar hafi bara verið að grínast af því að ekki neitt annað hafi verið í boði. (Forseti hringir.) Eða hvað?