149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[14:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að fagna því að þetta mál sé fram komið, ekki af því ég sé því fylgjandi, þvert á móti. Mér finnst raunar ekki heil brú í þeirri hugsun sem er sett fram í þessu frumvarpi. En það gefur okkur kærkomið tækifæri til þess að ræða ólík rekstrarform í heilbrigðiskerfinu okkar, með hvaða hætti má nýta kosti hvers um sig og kannski til þess að ræða ýmsar þær kreddur sem hafa verið í þessari umræðu. Það hefur nefnilega verið grautað saman í þessa umræðu einkarekstri og einkavæðingu og ríkisrekstri og oft og tíðum, að mér finnst a.m.k., til þess að kasta rýrð á hlutverk einkaframtaksins í heilbrigðiskerfinu okkar í dag.

Ef við veltum aðeins fyrir okkur í fyrsta lagi um hvað við erum meira og minna öll sammála í þessum sal þá er það að reka hér opinbert heilbrigðiskerfi. Þegar ég tala um opinbert heilbrigðiskerfi þá má í raun einfalda það með því að segja að við viljum að sem stærstur hluti kostnaðar okkar af því að sækja heilbrigðisþjónustu sé greiddur af hinu opinbera í gegnum hvort heldur sem er sjúkratryggingar, almannatryggingar eða önnur fjárframlög ríkis eða sveitarfélaga til heilbrigðismála. Við erum öll sammála um að reyna af fremsta megni að draga úr kostnaði, beinum útlögðum kostnaði almennings af heilbrigðisþjónustu þannig að hún sé raunverulega aðgengileg öllum án tillits til efnahags.

Þá veltir maður einmitt fyrir sér: Þarf hið opinbera heilbrigðiskerfi allt saman að vera rekið af ríkinu eða sveitarfélögum? Það er alls ekki svo í heilbrigðiskerfi okkar. Þar eru mjög fjölbreytt rekstrarform nú þegar. Þegar vísað er til viðhorfa almennings til heilbrigðiskerfisins og mismunandi rekstrarforma þá endurspegla þau viðhorf einmitt þennan fjölbreytileika. Fólk er almennt á því að ríkið eigi að reka sjúkrahús, yfirgnæfandi hluti landsmanna er það, enda er það svo, það eru ekki einkarekin sjúkrahús í heilbrigðiskerfi okkar í dag. En þegar kemur að heilsusgæslu, læknastofum, tannlækningum, sjúkraþjálfun, sálfræðiþjónustu og svo mætti áfram telja, þá eru rekstrarformin fjölmörg og oft og tíðum rekin af einkaaðilum, bæði í hagnaðarskyni og líka í svokölluðu „non-profit“ fyrirkomulagi eða í einhverjum öðrum tilgangi, t.d. í formi sjálfseignarstofnana. Þessu ber öllu saman að fagna.

Mín skoðun og okkar í Viðreisn er einfaldlega sú að hér eigi fjármagn að fylgja sjúklingi, ríkið eigi að beita sér sem kaupandi þessarar heilbrigðisþjónustu innan hins opinbera heilbrigðiskerfis, til þess að ná fram sem hagkvæmustum kjörum, til þess að tryggja hámark gæða í heilbrigðiskerfinu og hámarksskilvirkni. Þar er einmitt mjög gott að nýta krafta samkeppni líka, að það sé um fleiri en einn aðila að velja. Nýlegt dæmi varðandi heilsugæsluna er alveg rakið dæmi um slíkt. Með því að opna á fjölbreyttara rekstrarform í heilsugæslunni jókst í raun og veru samkeppnin um að þjónusta sjúklinga.

Við vitum sem er að þjónustustig heilsugæslunnar fyrir nokkrum árum var orðið algjörlega óviðunandi, biðtíminn gríðarlega langur. Með þeirri breytingu sem gripið hefur verið til, með því að breyta greiðslufyrirkomulaginu, með því að opna á fjölbreyttara rekstrarform innan heilsugæslunnar, hefur þjónustan stórbatnað, ekki með auknum tilkostnaði fyrir ríkið sem greiðir, heldur hefur það einfaldlega skilað betri þjónustu, betri gæðum við sjúklingana, við einstaklingana sem leita sér þessarar þjónustu.

Hérna skilur kannski fyrst og fremst á milli mín og hv. þingmanna sem standa að þessu frumvarpi. Við eigum nefnilega að beita samkeppni líka í heilbrigðiskerfinu til þess að tryggja sem mesta skilvirkni því að við setjum gríðarlega fjármuni í heilbrigðiskerfið á hverju ári. Þetta er um fjórðungurinn af útgjöldum ríkissjóðs. Það mun bara vaxa hjá okkur á komandi árum. Þjóðin er eldast. Kostnaðurinn við heilbrigðiskerfið mun vaxa út af öldrun þjóðarinnar. Það er sama þróun og við sjáum í öllum nágrannaþjóðfélögum okkar og vitum af öllum rannsóknum. Kostnaðurinn við okkur í heilbrigðiskerfinu vex eftir því sem við eldumst. Þá skiptir öllu máli að á sama tíma og við eflum heilbrigðiskerfið, tryggjum við um leið sem skilvirkasta nýtingu á því fjármagni sem í það rennur.

Mér finnst örla á einhvers konar fordómum gagnvart einkaframtaki, hagnaðardrifinni starfsemi, ef svo mætti orða það, í þessu og kannski gæta ákveðins grundvallarmisskilnings. Í mínum huga skiptir ekki höfuðmáli hvort læknir hagnast af starfsemi sinni eða ekki, heldur fyrst og fremst hvort sú þjónusta sem viðkomandi læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður veitir hinu opinbera sé hagkvæmari en aðrir kostir sem ríkinu standa til boða. Valkostur ríkisins er alltaf að beina þjónustunni inn í ríkisrekstur, t.d. inn á Landspítalann, en það getur líka verið kostur að leita út fyrir hátæknisjúkrahús eins og Landspítalann eftir hagkvæmni á sérhæfðu sviði. Þar eiga Sjúkratryggingar og heilbrigðisráðuneytið að vera miklu öflugri kaupendur þjónustu en þau eru í dag, að gera sér miklu betur grein fyrir því hvað viðkomandi aðgerð kostar t.d. á Landspítalanum í samanburði við aðra valkosti. Þessu sjáum við ítrekað beitt á hinum Norðurlöndunum, aðgerðir á borð við mjaðmaliðskiptaaðgerðir eða liðskiptaaðgerðir, augasteinsaðgerðir o.s.frv. Þetta eru oft aðgerðir sem er ekkert endilega sérlega hagkvæmt að sinna á Landspítalanum einfaldlega af því að bráðahlutverk sjúkrahússins er alltaf í forgangi. Það getur truflað mjög uppröðun aðgerða o.s.frv.

Það sem skiptir kannski höfuðmáli í þessu öllu saman er sá grundvallarmisskilningur að ef einstaklingur eða fyrirtæki hagnast á starfsemi sinni geri það hana dýrari fyrir þann sem kaupir þjónustuna. Þvert á móti getur hún verið mun hagkvæmari. Uppstillingin t.d. gagnvart heilsugæslustöðvunum er að þeim er ætlað að starfa í sama greiðslukerfi og hinn opinberi hluti kerfisins. Við þekkjum dæmi frá nágrannalöndum okkar, Svíþjóð t.d., þar sem jafnvel einkareknum heilbrigðisstofnunum er ætlað að starfa á lægra einingaverði, kannski 90% af því verði sem greitt er á opinberum heilbrigðisstofnunum. Það er vel hægt að ná fram aukinni skilvirkni, auknum gæðum, gegn lægri kostnaði með sérhæfingu á þessum sviðum eins og svo fjölmörgum öðrum. Þetta er grundvallaratriði í rekstri og raunar grundvallaratriði hagfræðinnar. Sérhæfingin skilar oft og tíðum miklu betri árangri heldur en vera að reyna að sinna altækri þjónustu á einum stað.

Svo spyr maður sig líka spurninga eins og ég nefndi hér í andsvörum mínum í gær í þessari umræðu: Af hverju má hagnast á sumum hlutum heilbrigðiskerfisins en öðrum ekki ef frumvarp sem þetta næði fram að ganga? Sala á lyfjum, rekstur apóteka, viðhaldsþjónusta við heilbrigðisstofnanir, lögfræðiþjónusta, endurskoðunarþjónusta, rafvirkinn, píparinn, ræstingar og guð veit hvað annað. Það er fjölþætt þjónusta sem rekin er í hagnaðarskyni sem veitt er inn á heilbrigðisstofnanirnar og kostar þá samkvæmt hugsanahætti flutningsmanna þessa frumvarps væntanlega meira. En það er auðvitað ekki svo. Þarna er leitað ýtrustu hagkvæmni og ekki amast við því hvort viðkomandi hagnist af starfsemi sinni, heldur er fyrst og fremst spurt hvað hún kostar. Er ég að fá bestu mögulegu kaup? Þannig hugsa vel reknar heilbrigðisstofnanir og eiga auðvitað að beita sér þannig, nýta sér kosti samkeppninnar til þess að ná fram sem hagkvæmustu kaupum á ýmsum aðdráttum fyrir starfsemina. Þannig á líka stjórnkerfi heilbrigðisþjónustunnar að starfa, heilbrigðisráðuneytið, velferðarráðuneytið og þá Sjúkratryggingar, beita kostum samkeppni til þess að tryggja sem skilvirkasta, öflugasta þjónustu, auðvitað tryggja gæði hennar líka, en á sem hagkvæmustu verði fyrir hið opinbera og ekki hvað síst að tryggja þjónustustig við sjúklinga. Við erum jú þrátt fyrir allt það fjármagn sem við setjum í heilbrigðiskerfið í dag með biðlista út um allt kerfið. Þrátt fyrir stóraukið fjármagn á undanförnum árum þá virðist lítið hafa leyst úr þeim vanda.

Það er auðvitað sérkennilegt að horfa upp á svona dæmi eins og við sjáum svo berlega í dag þar sem við erum að flytja sjúklinga úr landi, t.d. í liðskiptaaðgerðir, með margföldum kostnaði í staðinn fyrir að semja við innlenda aðila um sömu aðgerð með verulegu hagræði fyrir bæði viðkomandi sjúkling og fyrir hið opinbera. Þetta er einhver þvermóðska sem ég ekki skil. Ég velti fyrir mér: Á fólk sem ekki treystir sér til þess að nýta svona einfalda þætti eins og að beita kaupendaafli hins opinbera í heilbrigðisþjónustunni til þess að tryggja bæði skjóta og skilvirka hágæðaheilbrigðisþjónustu fyrir sjúklinginn og hafa sjúklinginn í forgrunni, að vera yfir höfuð að reka heilbrigðiskerfi? Mér er það algjörlega óskiljanlegt hvernig fólk getur horft fram hjá þessum augljósu kostum sem flestar þjóðir í kringum okkur nýta sér líka. Það er á endanum hagkvæmnin sem skiptir öllu máli.

Það er líka annað sem við ættum að hafa í huga í þessu samhengi sem hefur verið nefnt hér áður, það snýr að atvinnufrelsi fólks. Af hverju viljum við skilyrða það hvar sprenglært fólk á sviði heilbrigðisþjónustu vinnur og það sé einhvern veginn sett í spennitreyju um það hvernig það má hátta starfsemi sinni? Við viljum að fólk hafi frelsi til að nýta sér sérþekkingu sína, sérkunnáttu sína, með þeim hætti sem það sjálft kýs. Við getum ekki skikkað fólk til þess og sagt: Hafir þú numið þetta tiltekna fag þá máttu aðeins starfa hjá hinu opinbera eða í félagi sem ekki má greiða arð eða reka með hagnaði.

Ég velti fyrir mér hvaða áhrif slíkt hefur t.d. á heimkomu lækna sem eru með alþjóðlega þekkingu, alþjóðlega menntun, geta starfað hvar í heimi sem er, eru eftirsóttir starfskraftar um allan heim, oft með mjög góð tekjutækifæri víða annars staðar. Við erum nýbúin að fara í gegnum þessa sömu umræðu í tengslum við kjarasamninga lækna fyrir fáeinum árum. Hefur þetta engin áhrif? Við höfum mælingu á því núna þegar samningum sérfræðilækna var skellt í lás, fjöldi lækna velur það að koma ekkert heim af því að þeim gefst ekki færi til þess að opna hér stofu og komast á samning hjá Sjúkratryggingum. Þetta eykur bara hættuna á atgervisflótta í þessari mikilvægu grein hjá okkur.

Við eigum óhikað að krefjast þess af einkaframtaki í heilbrigðiskerfinu að það sýni ýtrustu skilvirkni, hagkvæmni og hámarksgæði. Hér er ekki verið að tala um einhvern pilsfaldakapítalisma. Hér er einfaldlega verið að tala um að hið opinbera beiti afli sínu af fullum krafti til þess að tryggja bestu mögulegu gæði, skilvirkni og verð á þeirri þjónustu sem það kýs að kaupa af einkaaðilum eða öðrum rekstraraðilum í opinbera kerfinu.

Svo eru auðvitað tveir punktar sem hafa hér verið nefndir og verður ekki hjá komist að minnast á. Það er alveg augljóst í mínum huga að nái þessi hugsunarháttur fram að ganga erum við hér að stíga raunverulegt skref til tvöfalds heilbrigðiskerfis. Það er alveg ljóst að það er markaður á Íslandi fyrir heilbrigðisþjónustu fyrir vel efnað fólk sem ekki er með neina greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Við höfum bara séð það. Fólk er að kaupa sig fram hjá þessu kerfi í dag þegar þjónustan ekki býðst annars staðar. Fólk kaupir sig fram hjá kerfinu þegar kemur að liðskiptaaðgerðum. Við sjáum nýlegt dæmi um taugalækni sem hér hóf störf, hann er fullbókaður án nokkurrar greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Þetta heitir tvöfalt heilbrigðiskerfi. Það er einmitt það sem við erum öll sammála um, held ég, í þessum sal að við viljum ekki, við viljum einmitt jafnt aðgengi. Við viljum tryggja það að öllum standi sama þjónusta til boða óháð efnahag.

Að lokum hefur það verið nefnt í umræðunni að það megi ekki greiða arð, það megi vissulega reka fyrirtæki með hagnaði, bara ekki greiða út úr þeim arð, en það megi taka sér aukalaunagreiðslur eða eitthvað þess háttar. En þá erum við bara komin í einhverjar bókhaldsbrellur um hagnað í heilbrigðistengdri starfsemi. Það er auðvitað ekkert vandamál fyrir einstaklinga í þessum rekstri að stilla launastig sitt af miðað við afkomu á hverjum tíma. Ég get ekki séð að það skipti nokkru máli á móti þeim möguleika að geta greitt sér arð. Skatttekjur ríkissjóðs af hvoru tveggja eru mjög sambærilegar eftir breytingar á skattalegri meðferð arðgreiðslna og engin ástæða til þess að gera sérstakan greinarmun þarna á milli.

Ég get svo sannarlega ekki talið mig meðal stuðningsmanna þessa máls. Ég fagna því hins vegar að við fáum hér góða umræðu um fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðiskerfinu og hvernig við getum nýtt okkur það til þess að tryggja okkur sem besta heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn, fá fleiri valmöguleika og þjónustudrifnara heilbrigðiskerfi en við höfum kannski búið við og búum við í dag, að fjármagn fylgi sjúklingi, en að sjúklingar hafi valmöguleika um hvert þeir leiti.