149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[15:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðum um þetta mál fram að þessu. Ég verð að segja að umræðan hefur farið, eins og gjarnan vill verða hjá okkur, sem er svo sem eðlilegt og skemmtilegt, út um víðan völl. Innihald frumvarpsins hefur ekki eingöngu verið rætt heldur líka stefna í málaflokki heilbrigðismála og ýmislegt annað. Það sem er athyglisverðast við frumvarpið er að á því eru allir þingmenn Vinstri grænna, ef ég hef tekið rétt eftir, og augljóst að málið er lagt fram með góðu samþykki heilbrigðisráðherra og þingflokksins alls. Maður veltir því fyrir sér hvort ástæðan sé sú að einhver hnútur sé í maganum hjá ríkisstjórninni út af málinu eða hvort þetta sé leiðin til að finna millileið, ná niðurstöðu þar sem allir geta verið sáttir.

Ég velti því fyrir mér hvernig sú sátt verður þegar stjórnarflokkarnir eru búnir að fara í gegnum þingmálið því að ég geri mér alveg grein fyrir því að þingflokkur Vinstri grænna, leiðandi flokkur í ríkisstjórn, leggur ekki fram svona þingmál upp á neitt grín, full alvara er að baki þingmálsins. Þess vegna hljótum við að velta fyrir okkur hvernig sáttin mun verða sem þarf að nást við hina stjórnarflokkana.

Ég er búinn að lesa frumvarpið, ég er búinn að lesa greinargerðina og þær lagagreinar sem er verið að breyta. Ég átta mig reyndar ekki alveg á samhenginu milli greinargerðarinnar og frumvarpsins, mér finnst aðeins stangast á það sem er í greinargerðinni og það sem er í rauninni verið að gera. Ég held að fram komi í greinargerðinni að ekki sé gert að fortakslausri skyldu í frumvarpinu að ráðherra beiti ákvæðinu en ég fæ samt ekki betur séð en að það sé akkúrat það sem verið er að gera, ef það er verið að bæta við 6. mgr. 40. gr. laga nr. 112/2008, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að ákveða nánar í reglugerð forsendur fyrir samningsgerð um endurgjald ríkisins fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan heilbrigðisstofnana sem ríkið rekur, í samræmi við stefnumörkun skv. 2. gr., og að hún skuli takmarkast við gagnreynda meðferð á sviði heilbrigðisþjónustu.“

Flutningsmenn leggja til að við þetta bætist: „og að ekki sé um að ræða rekstur í hagnaðarskyni.“

Ég fæ ekki annað séð en að verið sé að taka algjörlega af allan vafa um það að ráðherra getur ekki gert samninga um endurgjald ríkisins fyrir heilbrigðisþjónustu sem er rekin í hagnaðarskyni. Ég skil ekki hvernig er hægt að segja að ekki sé um fortakslaust bann eða skýr skilaboð að ræða.

Hin breytingin, meginbreytingin, er í 2. gr. frumvarpsins og hún er við 43. gr. laga nr. 112/2008, þ.e. 3. mgr. þeirrar lagagreinar sem heitir Endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa þá málsgrein:

„Heilbrigðisstofnanir og aðrir veitendur heilbrigðisþjónustu skulu kostnaðargreina þjónustu sína samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum aðferðum. Við kostnaðargreiningu skal taka mið af öllum hagrænum kostnaði, þ.m.t. kostnaði vegna húsnæðis, fjármagns og afskrifta.“

Við þetta vilja flutningsmenn að bætist nýr málsliður, svohljóðandi: „Veitendum er óheimilt að reikna arð og arðgreiðslur inn í kostnaðarmat.“

Nú hef ég ekki hugmynd um hvort það er gert í dag, hvort menn reikna almennt slíka hluti inn. Það er hins vegar ekkert sem bannar samkvæmt þessari tillögu og grein í dag að menn einfaldlega velti kostnaðinum, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á, inn í húsnæði eða aðra liði sem þeir hafa af rekstri sínum, mögulega eigin húsnæði, leigu og tækjum til sjálfs sín o.s.frv., og taki arðinn út þar, ef það er það sem menn ætla sér að koma í veg fyrir. Í grunninn sýnist mér að verið sé að leggja stein í götu fólks og hreinlega reynt að koma í veg fyrir eða alla vega draga úr hvatanum til þess að fólk flytji heim og hingað komi sérfræðingar og bjóði upp á þjónustu við hlið hins opinbera kerfis, sem er undirstaða heilbrigðisþjónustu okkar og við skulum ekki vera neitt í vafa um það. Við viljum öll hafa gríðarlega sterkt og öflugt opinbert heilbrigðiskerfi en það hefur líka sýnt sig að einstaklingar geta veitt þjónustu sem er jafn góð eða betri en veitt er hjá ríkinu.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna verið sé að draga úr hvatanum til að reka hagkvæma heilbrigðisþjónustu. Segjum að ríkið sé búið að búa sér til reiknilíkan sem segir að ákveðin aðgerð og ákveðin þjónusta kosti svo og svo mikið og svo getur einhver gert veitt þá þjónustu á ódýrari en jafn góðan eða betri hátt en hin opinber stofnun, spítali eða annað sem ríkið rekur, af hverju að taka hvatann til þess að hafa hlutina ódýrari? Það er það sem ég er að reyna að koma að. Mér finnst eins og flutningsmenn tillögunnar séu í rauninni á þeirri leið að taka hvatann til þess að gera þetta ódýrara samkvæmt þeim kröfum sem hið opinbera setur, þannig að þeir aðilar snúi sér að öðru.

Það er alls ekki víst að allir þeir sérfræðingar sem veita þjónustu fyrir utan ríkisapparatið í dag stormi inn á Landspítalann eða aðrar stofnanir og hefji þar störf ef þeir ákveða að segja skilið við starfsemi sína í ljósi breyttra aðstæðna, breyttra laga, engra samninga o.s.frv. Því síður tryggjum við að fólk sem hefur lagt stund á nám erlendis og sérhæft sig snúi heim og hefji starfsemi ef búið er að koma í veg fyrir að það geti mögulega veitt sömu þjónustu á sama hátt og kannski haft aðeins meira út úr því en inni á ríkisstofnun.

Mér finnst mjög varhugavert að kveða jafn skýrt á um þetta og ég tel að gert sé í frumvarpinu, að girt sé fyrir að hér sé rekin heilbrigðisþjónustu sem getur mögulega skilað hagnaði óháð því hvort þjónustan uppfylli þær kröfur sem eru gerðar eða ekki. Það væri hins vegar alveg fáránlegt ef við værum að borga fyrir þjónustusamninga eða eitthvað slíkt hjá einhverjum aðilum, sama hvað þeir gera, ef það kæmi svo í ljós að í fyrsta lagi væru afköstin léleg, þjónustan miklu lélegri og við fengjum ekki það sem við værum að borga fyrir. Ef við fáum ekki það sem við greiðum fyrir ber að sjálfsögðu að endurskoða það en ég held að ekkert bendi til þess, fátt alla vega, auðvitað er misjafn sauður í þeim hópi eins og annars staðar, að menn fái ekki það sem þeir greiða fyrir.

Mér sýnist ekki verið að stýra, eða skýra réttara sagt, heldur að banna. Þannig skil ég frumvarpið.

Ég ítreka það sem ég sagði, ég get ekki séð að komið sé í veg fyrir að menn geti með einhverjum ráðum greitt sér arð. Hér hefur aðeins verið rætt um þann möguleika að menn reikni sér arð inn í arðgreiðslur, inn í kostnaðarmatið. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki vit á því hvort það er gert á einhvern hátt. Ef það er gert finnst mér allt í lagi að það sé skoðað. En mér sýnist hins vegar augljóst að ef menn eru með eigin rekstur, í eigin húsnæði, með eigin tæki o.s.frv. sé fullt af leiðum til að koma arðgreiðslum fyrir annars staðar, ef menn vilja fara í það að búa til slíkt kerfi. Það er betra að hafa þetta hreint og klárt og uppi á borðum.

Virðulegi forseti. Það sem er mjög áhugavert við þetta mál er vitanlega hvernig það kemur hingað inn því að við vitum að Sjálfstæðisflokkurinn, alla vega þeir sem hafa talað í dag, sjá fátt gott við málið. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig stjórnarflokkarnir ná saman um niðurstöðu, vegna þess að ég veit að Vinstri grænum er full alvara með málinu. Enn sem komið er vitum við ekki hver afstaða Framsóknarflokksins, sem er líka í ríkisstjórn, er í málinu en það skiptir kannski ekki öllu máli. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn eru hvor á sinni plánetunni í þessu öllu saman og hafa ákveðið að mætast á tunglinu til að reyna að halda stjórnarsamstarfinu saman. Hvort mönnum tekst að gera það verður mjög áhugavert að fylgjast með. Málið er það skýrt fram sett, segi ég, og algjörlega í anda þeirrar stefnu sem heilbrigðisráðherra rekur í dag að forvitnilegt verður að sjá hvernig menn mætast þarna.