149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[15:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir spurninguna. Ég hélt að ég hefði svarað henni áðan og ítreka þá það sem ég sagði áðan og tel það vera svarið við spurningunni: Ég veit það ekki. Ég sagði bara að ég hefði áhyggjur af því að ef það er fortakslaust bann við því að það séu arðgreiðslur út úr þessu, það sé skrifað í lögin, kunni það að fæla frá.

Það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér. Vonandi hef ég rangt fyrir mér varðandi það. En ég óttast hins vegar að það geti haft neikvæð áhrif.

Ég held að við verðum í raun að gera allt sem við getum til þess að fjölga heilbrigðisstarfsmönnum, fjölga læknum og fjölga sérfræðingum á Íslandi. Það er skortur á ákveðnum sérfræðingum. Við vitum það úr mörgum áttum. Við þekkjum það kannski mörg hver sjálf af fólki í kringum okkur að það sárvantar fólk í ákveðnar greinar. Ég held að við megum því ekki taka skref núna sem geta virkað neikvætt í þá átt að fá þetta fólk heim.

Það væri mjög forvitnilegt ef heilbrigðisráðherra myndi deila því með okkur í þingsal hve miklar arðgreiðslur hafa verið greiddar yfirleitt út úr heilbrigðisgeiranum eða heilbrigðisþjónustu og í hvaða greinum það er. Þá gætum við kannski fengið mynd af því hvort þetta sé slíkt vandamál að það þurfi að fara að setja hér boð og bönn af því að ég held nefnilega að það þingmál sem hér er lagt fram sé miklu meira bann en hv. flutningsmenn vilja segja í sinni greinargerð. Þannig í það minnsta les ég það. Það á allt eftir að koma í ljós hér, hvernig umræðan verður og hvernig umfjöllun málið fær í nefnd. En það er tilhlökkunarefni að sjá hvernig stjórnarflokkarnir munu útkljá þetta mál, hæstv. forseti.