149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[15:38]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Hann talaði sjálfur um að í frumvarpinu væri grautað saman hlutum og væri þess vegna erfitt að henda reiður á því. Það er býsna margt í ræðu hv. þingmanns sem mér fannst ekki beinlínis vera um frumvarpið, um það sem það snýst um. Ég ætla að reyna að halda mig við það sem þingmaðurinn sagði.

Fyrst þingmaðurinn nefndi að hann teldi að heilbrigðisráðherra hefði hundelt einhver tiltekin fyrirtæki og félagasamtök og væri að rústa þessum félögum get ég fullvissað þingmanninn um að það er ekki rétt. Ég get líka fullvissað þingmanninn um að það er ágætlega hugsað fyrir því góða félagi, SÁÁ, sem hann nefndi. Það mun halda áfram að starfa innan íslenska heilbrigðiskerfisins sem „non-profit“ fyrirtæki, ef ég þekki rétt.

Þingmaðurinn hafði og hefur líka áhyggjur af jafnræðisreglunni og bar saman það að selja lyf og ávísa lyfjum. Það er tvennt ólíkt vegna þess að við lyfjaávísunina býr að baki samtal læknis og sjúklings eða annars heilbrigðisstarfsmanns og sjúklings. Að baki býr mat á ástandinu og það er læknirinn eða heilbrigðisstarfsmaðurinn sem ákveður í hvert skipti hvaða lyf er notað. En síðan er það notandinn sjálfur í því tilfelli sem ákveður til hvaða apóteks hann fer.