149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil í lok umræðunnar þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í henni og viðrað sjónarmið og skoðanir. Það er afar gagnlegt, eins og margir hv. þingmenn hafa komið inn á, að við þingmenn notum þennan vettvang til þess að ræða skoðanir okkar á samfélagsmálum og pólitík. Ég verð að segja að stórt séð hefur umræðan snúist um það og að því leyti til um kjarna málsins.

Ég geri ráð fyrir að þetta frumvarp gangi nú til hv. velferðarnefndar þar sem það verður væntanleg rætt og leitað umsagna. Ég hlakka til að sjá í hverju þær felast.

Þingmenn hafa lýst áhyggjum sínum við umræðuna, m.a. af jafnræðisreglunni og fleiri þáttum. Ég treysti því að þau atriði verði til umræðu í hv. nefnd, enda tek ég heils hugar undir með þeim þingmönnum sem hafa lýst áhyggjum að auðvitað þarf að gera það. Þetta þarf að vera alveg á hreinu.

Varðandi það sem sumir myndu kalla pólitíkina í þessu, en margir þingmenn hafa m.a. spurt af hverju núna, hvað sé í gangi o.s.frv., þá er það svo, eins og ég hef raunar komið inn á fyrr í umræðunni, að Vinstri græn hafa haft það í stefnuskrá sinni frá árinu 2002 eða 2003 að við teljum að heilbrigðisþjónusta eigi fyrst og fremst að vera fjármögnuð af ríkinu. Við höfum aldrei sett okkur upp á móti einkarekstri í heilbrigðisþjónustu, en við teljum að heilbrigðisþjónusturekstur á hendi einkaaðila eigi ekki að vera andlag til arðgreiðslna fyrir þá.