149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

almannatryggingar.

12. mál
[15:50]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, barnalífeyrir.

Þetta er einnig fyrsta þingmál Framsóknarflokksins á þessu þingi og því áherslumál. Meðflutningsmenn mínir eru þingflokkurinn, þ.e. ásamt þeirri sem hér stendur hv. þingmenn Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson og Þórunn Egilsdóttir.

Ég ætla að fara yfir málið og greinargerðina og grípa svo aðeins niður í umsagnir sem bárust um málið í vor sem varpa kannski aðeins skýrar ljósi á frumvarpið.

Lagt er til að á eftir 20. gr. laganna komi ný grein, 20. gr. a, ásamt fyrirsögn, sem er svohljóðandi:

„Barnalífeyrir vegna sérstakra útgjalda. Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.

Framlag skv. 1. mgr. er einungis heimilt að greiða vegna barna sem greiddur er barnalífeyrir með skv. 1. mgr. 20. gr.

Framlag skv. 1. mgr. verður aðeins ákveðið ef sýslumaður hefur úrskurðað um slíkt framlag samkvæmt beiðni sem honum skal send innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.

Um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög gilda sömu reglur og um úrskurði vegna sérstakra útgjalda skv. 60. gr. barnalaga.“

Í 2. gr. stendur:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarp þetta var áður flutt á 148. löggjafarþingi og er nú endurflutt lítillega breytt.

Um 900 börn á Íslandi sem nú eru á aldrinum 0–18 ára hafa misst foreldri.

Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef foreldri er látið eða er elli-, örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþegi. Einnig geta einstæðir foreldrar sótt um barnalífeyri í stað meðlags ef ekki er hægt að feðra barnið, það getur t.d. átt við um tæknifrjóvgun. Frá 1. janúar 2018 er barnalífeyrir 33.168 kr. á mánuði með hverju barni eða 398.016 kr. á ári.

Samkvæmt 60. gr. barnalaga, nr. 76/2003, má úrskurða meðlagsskyldan aðila til greiðslu framlaga vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar. Önnur tilefni geta einnig orðið grundvöllur slíkra framlaga en þó aðeins ef þau eru sérstaks en ekki almenns eðlis, enda er reglubundnum meðlagsgreiðslum ætlað að standa straum af almennri framfærslu barns. Dómsmálaráðuneytið gefur út leiðbeiningar til sýslumanna um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög og ber að uppfæra þær árlega miðað við vísitölu neysluverðs. Samkvæmt upplýsingum á vef sýslumanna á þessu ári þykja fjárhæðirnar hæfilega ákveðnar sem hér segir:

72.000–95.000 kr. vegna fermingar,

19.000–24.000 kr. vegna skírnar,

72.000–106.000 kr. vegna greftrunar.

Ekki eru gefnar út leiðbeiningar vegna annarra framlaga sem hér eru talin.

Sambærilega heimild er ekki að finna til handa barnalífeyrisþegum þar sem staðan er þó sú sama á þann veg að einn framfærandi ber hitann og þungann af öllum kostnaði sem upp kemur. Flutningsmenn telja að með því sé börnum einstæðra foreldra mismunað, þ.e. eftir því hvort báðir foreldrar eða annar er á lífi. Í 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að nauðsynlegt sé að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað, t.d. vegna stöðu foreldra þess. Slík mismunun fer einnig gegn hugmyndum jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár Íslands.

Flutningsmenn telja að hér sé verið að mismuna börnum sem hafa misst annað foreldri sitt og rétt að sambærileg heimild verði fest í lög um almannatryggingar á þann veg að framfæranda barnalífeyrisþega verði heimilt að óska eftir viðbótarbarnalífeyri vegna sérstakra útgjalda. Í frumvarpinu er miðað við að sömu sjónarmið verði höfð til hliðsjónar við mat á viðbótarframlagi og stuðst er við í 60. gr. barnalaga. Beiðni um slíkt framlag skal beint til sýslumanns sem úrskurðar um hvort ríkinu beri að greiða viðbótarframlag vegna sérstakra aðstæðna.

Svona hljómar greinargerðin. Þegar málið var lagt fram á síðasta þingi, 148. þingi, á þessu ári, bárust að ég held sjö umsagnir frá ýmsum aðilum. Í þeim öllum kom fram að stuðningur væri við þessa lagabreytingu.

Mig langar tað lesa umsögnina sem barst frá stjórn Ljónshjarta, sem eru samtök til stuðnings yngra fólki sem misst hefur maka og börnum þeirra. Það voru einmitt þau samtök sem urðu til þess að ég lagði fram frumvarpið í fyrstu. Þetta er ágætisumsögn og ítarleg, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Stjórn Ljónshjarta fagnar lagabreytingunni sem hér er lögð til, enda er hún til þess fallin að leggja af mismunun sem hefur verið við lýði gagnvart barnalífeyrisþegum, þ.e. börnum öryrkja og börnum sem misst hafa foreldri.

Samkvæmt 60. grein barnalaga nr. 76 frá 2003 er heimilt að úrskurða þann sem meðlagsskyldur er til að inna af hendi sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.

Barnalífeyrisþegar hafa hins vegar ekki átt rétt á þessu sérstaka framlagi samkvæmt túlkun Tryggingastofnunar ríkisins á Barnalögum, þ.e. að hið opinbera teljist ekki meðlagsskyldur aðili þrátt fyrir skýra lagaskyldu þess til að greiða lífeyri til barna sem misst hafa foreldri jafnháan einföldu meðlagi.

Við andlát foreldris barns undir 18 ára aldri myndast réttur til greiðslu barnalífeyris af hálfu hins opinbera, samanber lög um almannatryggingar, og ennfremur til barnalífeyris vegna náms/starfsþjálfunar og sér Tryggingastofnun ríkisins um greiðsluna fyrir hönd hins opinbera.

Með greiðslu barnalífeyris til barna sem missa foreldri er vilji löggjafans ljóslega sá að jafna fjárhagslega stöðu þeirra og barna sem eiga báða foreldra á lífi, enda er upphæð barnalífeyrisins jöfn að krónutölu á hverjum tíma við einfalt meðlag með börnum annarra einstæðra foreldra.

Eins og málum er háttað í dag er hér ótvírætt um mismunun að ræða eftir stöðu barna, þ.e. því hvort þau eiga báða eða eitt eða hvorugt foreldri á lífi. Slík mismunun fer í bága við stjórnarskrá Íslands en þar segir í 65. gr. að allir skuli vera jafnir fyrir lögum.

Þá má einnig vísa til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en þar segir í 2. grein að aðildarríki skuli ,,gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima.“

Ljónshjarta benti í mars árið 2016 á þessa augljósu mismunun í erindi til Umboðsmanns barna, Margrétar Maríu Sigurðardóttur, sem og sex þingmanna í hópi talsmanna barna á Alþingi, sem tóku undir sjónarmið samtakanna um þörfina á lagabreytingu. Við ítrekum því fullan stuðning okkar við frumvarpið.

Á vefsíðu sýslumanna, árið 2018, kemur fram að dómsmálaráðuneyti skuli gefa út leiðbeiningar til sýslumanna um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög og þyki fjárhæðir hæfilega ákveðnar sem hér segir:

72.000—95.000 kr. vegna fermingar,

19.000—24.000 kr. vegna skírnar,

72.000—106.000 kr. vegna greftrunar.

Að mati samtakanna væri æskilegt að fram kæmi í frumvarpinu vilji löggjafans til þess að hækka ofangreindar upphæðir til samræmis við helming af raunverulegum lágmarkskostnaði, og þá sérstaklega vegna greftrunar barns sem kostar á bilinu 700.000–1.000.000 kr.“

Hér leggja samtökin til ákveðna viðbót, sem ég geri ráð fyrir að hv. velferðarnefnd taki til greina þegar hún fær málið til umfjöllunar, og þar segir:

„Við leiðbeiningar sem dómsmálaráðuneyti skal gefa út til sýslumanna um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög skal haft til hliðsjónar að þær séu helmingur af ætluðum lágmarkskostnaði.“

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að viðmiðunarfjárhæðin vegna greftrunar, 72.000–106.000, er langt frá því að vera helmingurinn ef upphæðin er 700.000–1.000.000 kr. Ég tek því undir athugasemd og ábendingu Ljónshjarta og vonast til þess að hv. velferðarnefnd geri það líka og bæti þar með frumvarpið eins og það er lagt fram.

Tryggingastofnun ríkisins sendi einnig inn ágæta umsögn. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Tryggingastofnun gerir ekki athugasemdir við að stofnuninni sé veitt heimild til að greiða slíkt framlag eins og lagt er til hér. Lagaákvæðið sjálft er hins vegar ekki nægilega skýrt við afmörkun þess hóps sem ætlunin er að lagabreytingin gagnist samkvæmt greinargerðinni með frumvarpinu. Koma þyrfti fram að einungis sé heimilt að greiða þetta sérstaka framlag vegna barna sem greiddur er barnalífeyrir vegna skv. 20. gr. almannatryggingalaga á þeim grundvelli að annað eða bæði foreldri eru látin eða barn sé ófeðrað. Ljóst þarf að vera að ákvæðið eigi ekki við sé meðlagsskylt foreldri til staðar sem hægt væri að beina kröfu sinni að eins og heimilt er að gera skv. 60. gr. barnalaga.

Þá er lagt til að beiðni um þetta sérstaka framlag verði beint til sýslumanns sem úrskurðar um hvort ríkinu beri að greiða viðbótarframlag vegna sérstakra aðstæðna. Eðlilegt er að slíkt ákvæði verði einnig sett í barnalögin.“

Ég tek undir þennan punkt frá Tryggingastofnun ríkisins og segi það sama og áður að ég vona að fyrrnefndir aðilar sendi hv. velferðarnefnd ítarlegar og góðar umsagnir eins og síðast með sömu punktum og að tekið verði tillit til þeirra og þeir skoðaðir vandlega og metið hvort rétt sé að breyta frumvarpinu samkvæmt þeim ábendingum.

Eins og ég nefndi áðan bárust fleiri mjög jákvæðar umsagnir við málið á síðasta þingi, m.a. frá Barnaheill, sem styður efni frumvarpsins og vill að það verði samþykkt sem lög.

Félag um foreldrajafnrétti styður einnig frumvarpið og Mannréttindaskrifstofa Íslands sendi jákvæða umsögn, sem og Öryrkjabandalag Íslands og Umboðsmaður barna.

Ég held að ég ljúki máli mínu hér með, virðulegi forseti, og óska eftir því að frumvarpið gangi til velferðarnefndar til frekari skoðunar.