149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa komið hingað og kvartað undan þessari framkomu í garð okkar stjórnarandstöðuþingmanna og í garð þingsins alls. Fyrir helgi var ein af fastanefndum þingsins á ferðalagi um suðurfirði Vestfjarða og á föstudagsmorgni, þegar þingmenn mættu sveitarstjórnarfólki þar á Vestfjörðum, þurftum við að sitja fyrir svörum um samgönguáætlun sem þá hafði birst í fjölmiðlum að morgni. Við komum af fjöllum af því að við vissum ekki til þess að komin væri fram nein samgönguáætlun.

Ég veit ekki alveg hvernig við eigum að auka virðingu Alþingis Íslendinga þegar þingmenn eru gripnir svona í bólinu, vita ekki neitt um það sem kemur fram í fjölmiðlum. Þá kom í ljós að stjórnarþingmenn höfðu fengið eitthvað að sjá fyrr í vikunni en gátu þó engu svarað af því að það var ekki búið að afgreiða þetta út úr stjórnarþingflokkum.

Þetta eru engin vinnubrögð, herra forseti, af því að við höfum líka alla helgina þurft að vera að svara fyrir eitthvað sem við höfum bara aldrei séð. (Forseti hringir.) Og hvað gerist? Fundarfall í umhverfis- og samgöngunefnd trekk í trekk. Hvenær fáum við að frétta eitthvað?