149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:08]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa komið upp í pontu og vil ræða um samgönguáætlun sem allir virðast hafa séð, fjölmiðlar, stjórnarþingmenn og jafnvel sveitarstjórnarmenn, og maður fær spurningar alls staðar að. Ég er meðlimur í umhverfis- og samgöngunefnd og ég hef engin svör vegna þess að ég hef ekki fengið þessa samgönguáætlun sem allir aðrir virðast hafa fengið.

Við bíðum spenntir eftir að fá þessa áætlun og ég spyr hæstv. samgönguráðherra: Hvenær fáum við þessa áætlun í hendur, þingmenn á Alþingi Íslendinga?

Þetta er alvarlegt mál. Það er mikið óþol varðandi samgöngumál og margir spyrja: Hver eru næstu skref ríkisstjórnarinnar í þessum málum? Og við fáum ekki að sjá þessa áætlun sem allir virðast hafa séð nema við.