149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir með þeim sem hér hafa komið upp og kvarta yfir eða átelja þau vinnubrögð sem augljóslega eru höfð uppi hér. Einhver, hvort sem það er ráðherra sjálfur eða þingmenn stjórnarflokkanna, hefur séð ástæðu til að leka þessari samgönguáætlun í fjölmiðla. Við höfum séð myndir, á Stöð 2 ef ég man rétt, af þessum pappír en stjórnarandstaðan hefur ekkert fengið að vita.

Líkleg ástæða fyrir þessum leka er sú að samgönguáætlunin stendur eitthvað í einhverjum stjórnarflokkum. Þá er forvitnilegt að vita hvort hún hafi verið afgreidd úr stjórnarflokkunum í dag. Það voru þingflokksfundir hjá flestum flokkum í dag. Kannski sjáum við hana þá í kvöld eða á morgun, ég veit það ekki, en vinnubrögðin eru algjörlega óþolandi, að það sé verið að fjalla um tugmilljarðaframkvæmdir í fjölmiðlum eða einhverjum bakherbergjum úti í bæ áður en þingið fær að sjá plaggið og tjá sig um það.

Svo eru þingmenn eðlilega rukkaðir um afstöðu sína til þessara frétta, til þessara upplýstu blaðsíðna úr þessari samgönguáætlun sem hafa verið sýndar í fjölmiðlum.

Er þetta það sem við höfum verið að ræða varðandi það að efla traust á Alþingi? Eða traust hér innan dyra yfirleitt? Nei, að sjálfsögðu ekki. Þessi vinnubrögð eru til skammar.