149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmenn verði að hafa í huga að það er munur á samgönguáætlun og tillögu samgönguráðherra að samgönguáætlun. Samgönguáætlun er þingsályktunartillaga sem er afgreidd er á Alþingi. Ekkert er orðið að samgönguáætlun fyrr en það hefur fengið þinglega meðferð.

Tillaga samgönguráðherra mun koma fyrir þingið innan skamms og mun þá fá alla þá þinglegu umfjöllun sem nauðsyn krefur. Ekki getur verið með neinum hætti hægt að takmarka möguleika samgönguráðherra til að kynna með einhverjum hætti hvaða áform hann hefur um mál sem hann ætlar að leggja fyrir þingið, eins og mér heyrist hv. þingmenn vera að gera. Mér heyrist þeir vera að kalla eftir því að samgönguráðherra geti ekki komið með mál af þessu tagi fyrir þingið öðruvísi en að vera búinn að gera þingmönnum viðvart á einhvern hátt.

Það verður ekki frá samgönguráðherra tekið að hann hefur frumkvæðisvald í þessu máli, (Forseti hringir.) hann leggur tillögur sínar fyrir þingið sem fá þá þinglega meðferð. (Forseti hringir.) Hvenær og hvernig ráðherra kýs að kynna það (Forseti hringir.) verður að vera undir honum komið. Þingmenn geta ekki bundið hendur hans í þeim efnum.