149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta mál er dálítið einkennandi fyrir þann aðstöðumun sem er milli stjórnarandstöðu og stjórnarflokkana á þingi þar sem stjórnarflokkarnir eru greinilega með aðgang að þessum tillögum, afsakið orðhengilsháttinn hérna, að þingsályktunartillögu samgönguráðherra á meðan stjórnarandstöðuþingmennirnir eru það ekki, sem er alveg eðlilegt út af fyrir sig.

Þegar það gerist síðan að skjalinu er lekið til fjölmiðla, eins og virðist hafa gerst á fimmtudaginn ef ég skil þetta rétt af umræðunni sem hefur verið hérna í gangi í þinginu, þá birtist einhver samtíningur úr samgönguáætlun á vegum ráðuneytisins á föstudaginn. Það er ekki sami aðgangur sem við höfum þá að upplýsingum og í þessu skjali sem miklu fleiri hafa aðgang að. Við getum ekki svarað fyrir allar þær upplýsingar sem aðrir hafa aðgang að en ekki við, nema einhvern samtíning sem samgönguráðherra ákveður að gefa okkur.

Á sama tíma þegar það er orðið ljóst að þetta er komið út í fjölmiðla, af hverju fáum við ekki bara nákvæmlega sama skjal og er þá aðgengilegt fyrir nefndir og stjórnarþingmenn þannig að við getum rætt málið á jafnræðisgrundvelli?