149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst ég knúinn til þess að bregðast við orðum hv. þm. Birgis Ármannssonar. Ég skildi ræðu hans ekki betur en svo að hann væri að réttlæta þetta, sem er svolítið á skjön við það sem hæstv. ráðherra sagði um að þetta væri óheppilegt. Hv. þingmaður gerir þetta svolítið mikið og mig langaði bara til að árétta að það er engin afsökun fyrir hegðun að þinglegt ferli sé notað til að samgönguáætlun sé samþykkt. Það vita allir þingmenn að formlega séð verður lögð fram tillaga til samgönguáætlunar. Það vita allir þingmenn að samgönguáætlun er afurðin úr þeirri þinglegu meðferð sem á eftir kemur. Þegar hv. þingmaður lætur eins og þingheimur sé einhvern veginn ómeðvitaður um þær staðreyndir gerir hann lítið úr málinu sjálfu og lítið úr því að yfir höfuð eigi að stunda betri vinnubrögð en þau sem að algeru lágmarki samræmast þingsköpum og stjórnarskrá og lögum almennt. Mér finnst þess virði að nefna það sérstaklega og vísa frá slíkum réttlætingum. Þetta snýst um það hvort ríkisstjórnin vill gera þetta vel. (Forseti hringir.) Mér þætti vænt um ef einhver ráðherra, hæstv. samgönguráðherra, væri til í að koma hingað upp og hafna þessum rökstuðningi hv. þm. Birgis Ármannssonar.