149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:26]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég tek undir að það eru miklar væntingar til samgönguáætlunar. Þetta er grunnplagg sem skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli og við bíðum spennt eftir að fá að takast á við það hér. En þegar talað er um að samráð hafi ekki átt sér stað þá hefur verið farið eftir öllum vinnureglum hvað það varðar. Samgönguráð hefur farið um landið og haft samráð við alla hagaðila, bæði sveitarfélög og sveitarstjórnir, landshlutasamtök og aðra. Þannig að því hefur öllu verið fylgt eftir.

Það verður aldrei tekið af ráðherra að hann hefur fullt leyfi til þess að skýra frá sínum áherslum og er í fullum rétti til þess. Vissulega er óheppilegt að hér hefur orðið leki, ég tek undir það. Það er eitthvað sem við þurfum kannski að takast á við hérna inni því að hér þarf að ríkja traust í ljósi umræðunnar um eflingu trausts sem við vorum að ræða. En það að ráðherra hafi farið eitthvað út af sporinu get ég alls ekki tekið undir.