149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:31]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Logi Einarsson kom hér inn á. Sjálfur mætti ég á fundi landshlutasamtaka og var krafinn svara. Ég gat ekki sagt þeim meira en eitthvað um áform ráðherrans. Ég gat auðvitað ekki farið að kynna samgönguáætlun þar, sem ég gerði ekki heldur. Ég vil bara undirstrika að það er óheppilegt að vera í þessari tímalínu. Ég mun gera allt sem ég mögulega get til þess að koma þessum gögnum til alls þingsins eins fljótt og auðið er. En engu að síður er málið til umfjöllunar hjá stjórnarflokkunum og ég tel að það sé nú kannski eðlilegt áður en samgönguáætlun í heild sinni verður birt þinginu að þeirri umfjöllun ljúki þar.

Hins vegar væri auðvitað í lófa lagið að boða til fundar í umhverfis- og samgöngunefnd og fara yfir þessi meginatriði, til að mynda á morgun ef það væri flötur á því. Ég lýsi mig algerlega opinn fyrir slíkum leiðum ef það reynist leið til að við sitjum (Forseti hringir.) öll við sama borð og getum þá farið að ræða samgönguáætlun því að það er innihald hennar sem er miklu áhugaverðara en formið. En óheppilegt hefur formið verið.