149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

fjárveitingar til SÁÁ.

[15:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Að meðaltali deyja tveir Íslendingar á viku vegna fíknivanda. Þetta eru rúmlega 100 einstaklingar á ári. Það er staðreynd. Á fyrri hluta ársins létust um 30 einstaklingar vegna fíknivanda. Þeir voru á aldrinum 15–40 ára gamlir.

Við vitum að hér var fordæmalaust ástand eftir hrun. Auðvitað þurftu margir að taka á sig skell, það varð að skera niður á báða bóga í öllum opinberum rekstri. Það er líka staðreynd. En staðreyndin er sú að SÁÁ hefur ekki fengið neina leiðréttingu frá því eftir hrun. Í samningum sínum við Sjúkratryggingar Íslands ættu að vera útistandandi núna um 278 millj. kr., bara til dagsins í dag, ef halda ætti sjó miðað við það þegar þeir voru skornir niður á svo groddaralegan hátt í kjölfar hrunsins. Fíknivandinn hefur aldrei verið meiri. Biðlistinn hefur aldrei verið lengri, tæplega 600 einstaklingar bíða eftir innlögn á Vog, það eru 530 einstaklingar sem er greitt fyrir frá ríkinu, 53% allra þeirra sem koma í bráðainnlögn á Vog koma frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi og öðrum opinberum stofnunum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað er að gerast í þessum málum? Hvað er virkilega að gerast í þessum málum þegar við vitum að hver einasti fíkniefnasjúklingur þarf að nýta sér aðstöðu hjá SÁÁ? Þeir eru þeir fagaðilar sem við höfum stólað á í áratugi, yfir 25.000 Íslendingar hafa nýtt sér úrræði og læknishjálp hjá SÁÁ.

Virðulegi forseti. Hvað er hæstv. heilbrigðisráðherra að gera á meðan fólkið okkar deyr hér allt í kring?