149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

sjúkraflutningar Rauða krossins.

[15:41]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Samfélagsverkefnin eru margvísleg. Eitt af þeim er heilbrigðisþjónustan. Hún er margsamsett og flókin. Til þess að vel takist til þarf aðkomu margra úr ýmsum áttum. Sjúkraflutningar eru einn af þeim mikilvægu hlekkjum í heilbrigðisþjónustunni sem landsmenn reiða sig á, bæði hér á þéttbýlissvæðinu en ekki síst á landsbyggðinni. Þessi þjónusta styðst við ákvæði í lögum um heilbrigðisþjónustu og reglugerð nr. 262/2011. Stopul læknamönnun víða undirstrikar mikilvægi þessa enn frekar, en áhafnir sjúkrabíla eru vel þjálfaðir heilbrigðisstarfsmenn og takast iðulega á við krefjandi verkefni sem skipta sköpum.

Fyrir nokkru var frá því greint í fjölmiðlum að enn væri óleyst deila um þessa þjónustu á milli Rauða kross Íslands og ráðuneytis og að brýn endurnýjun bifreiða og búnaðar biði enn um sinn. Engir samningar væru í gildi á milli þessara aðila og þannig hefði það verið frá ársbyrjun 2016. Nú væri svo komið að Rauði krossinn, úr því sem komið væri, vildi losa sig út úr þessari þjónustu og leita eftir uppgjöri eftir meira en 90 ára samfellda þjónustu þar sem Rauði krossinn hefur byggt upp og þróað þessa starfsemi á landsvísu.

Eftir því sem fram kemur stendur deilan m.a. um eignarhaldið á bílum, en vegna ástandsins hafa engir nýir bílar verið keyptir frá árinu 2015.

Ég spyr því ráðherra hver raunveruleg staða málsins sé. Standa yfir samningaviðræður við Rauða krossinn eða er verið að leita til annarra aðila, einkaaðila eða að ríkisvæða þessa þjónustu? Hverjir eru þessir aðilar? Hvað líður þessum undirbúningi?

Þegar svo veigamikil breyting er gerð á þjónustunni sem varað hefur með ágætum í nærfellt 100 ár hlýtur að liggja að baki eitthvert ósætti, annaðhvort með framkvæmd þjónustunnar eða kostnað. Hvort er það? Hversu mikið sparast með því að hafna samningum við Rauða krossinn og fela öðrum aðila verkefnið? Hver er upphæðin á ársgrundvelli?