149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

sjúkraflutningar Rauða krossins.

[15:46]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er laukrétt að það þarf meira til en bara að keyra bílana. Það eru oft og tíðum, og nú undantekningalaust, vel menntaðir einstaklingar sem annast þessa þjónustu og hafa margir umtalsvert nám að baki.

Ég sakna þess að ráðherra skyldi ekki nefna hvort gert hafi verið eitthvert áhættumat eða kostnaðarmat við þessa breytingu. Þessi þjónusta byggir á mjög traustum grunni hjá Rauða krossinum, að flestra áliti, og er eitt af auðkennismerkjum Rauða krossins í gegnum tíðina. Hér eru að verki samtök sem starfa án hagnaðarsjónarmiða og tilheyra kannski hinum svokallaða þriðja geira. Ég tel að þörf sé fyrir sveigjanleika og samstarf við þennan þriðja geira, vel skilgreindan, í náinni framtíð.

Ég endurtek bara spurningu mína: Hvað mun þetta kosta?