149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

sjúkraflutningar Rauða krossins.

[15:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki þær tölur sem hv. þingmaður biður um á hraðbergi í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Ég held að vel færi á því að hann óskaði eftir svörum með skriflegri fyrirspurn. Ella mun ég kalla eftir þessum upplýsingum og koma þeim til hans ef hann óskar eftir því.

Hv. þingmaður talar um sveigjanleika. Ég held að hann sé afar mikilvægur þegar horft er til þessarar tilteknu þjónustu eins og raunar allrar heilbrigðisþjónustu en í þessu tilfelli var komið að því, að mati ráðuneytisins, að taka ákvörðun um næstu skref og það varð úr að þessi leið var farin.

Ég vil geta þess í svari mínu að ég er fyrir mína parta mjög meðvituð um þörf á auknu fjármagni til sjúkraflutninga almennt og geri þess vegna í fjárlögum — það má sjá í tillögu fjármálaráðherra til fjárlaga — ráð fyrir viðbótarfjármagni fyrir sjúkraflutninga um land allt að því er nemur 200 millj. kr. (Forseti hringir.) Ég vonast til þess að við getum gert betur í því að tryggja rekstrarlegt umhverfi fyrir sjúkraflutninga og ekki síst á landi.